Enski boltinn

Gæti snúið sér að spila­göldrum ef Ful­ham fellur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Antonee Robinson er margt til lista lagt.
Antonee Robinson er margt til lista lagt. Fran Santiago/Getty Images

Antonee Robinson, oftar en ekki kallaður Jedi, er leikmaður enska knattspyrnufélagsins Fulham. Liðið er nýliði í ensku úrvalsdeildinni og í óðaönn að undirbúa sig komandi tímabil. Hinn 24 ára gamli Jedi er hins vegar ekki allur þar sem hann er séður.

Leikmaðurinn er fæddur og uppalinn í Englandi en hefur alla tíð leikið fyrir landslið Bandaríkjanna. Alls á hann að baki 29 A-landsleiki sem og nokkra yngri landsliði. Hann ólst upp hjá Everton en spilaði aldrei fyrir aðallið félagsins.

Eftir að fara á láni til Bolton Wanderers og Wigan Athletic þá samdi hann við síðarnefnda liðið árið 2019. Þar var hann í eitt ár áður en hann gekk í raðir Fulham. Þar er hann enn í dag og birti Twitter-síða félagsins vægast sagt skemmtilegt myndband af leikmanninum á dögunum.

Robinson – eða Jedi – er einkar fær með spilastokkinn og gerði liðsfélaga sína agndofa er hann sýndi þeim spilagaldur. Ekki er um hinn hefðbundna „ er þetta spilið þitt“ galdur að ræða heldur nýtir hann allan stokkinn, öll 52 spilin.

Sjón er sögu ríkari en hér að neðan má sjá myndband af þessum stórskemmtilega spilagaldri.

Nýliðar Fulham fá erfitt verkefni í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar er Liverpool kemur í heimsókn. Hvort spilagaldur, eða eitthvað annað, dugi gegn Mohamed Salah kemur í ljós þann 6. ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×