Íslenski boltinn

Guð­jón Pétur segist ekki vera fara fet þrátt fyrir á­huga Grinda­víkur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðjón Pétur Lýðsson í leik með ÍBV í sumar.
Guðjón Pétur Lýðsson í leik með ÍBV í sumar. Vísir/Diego

Hávær orðrómur er á kreiki er varðar stöðu Guðjóns Péturs Lýðssonar, leikmanns ÍBV í Bestu deild karla í fótbolta. Talið er að hann gæti verið á leiðinni til Grindavíkur sem spilar í Lengjudeildinni.

Guðjón Pétur hefur komið við sögu í tíu leikjum hjá ÍBV í Bestu deildinni í sumar. Hann hefur hins vegar ekki byrjað leik síðan gegn ÍA þann 21. maí síðastliðinn. Frægt er orðið þegar Guðjóni Pétri og Hermanni Hreiðarssyni, þjálfara liðsins, lenti saman eftir leik fyrr í sumar.

Var Guðjón Pétur í kjölfarið sendur í straff. Það entist í tvo leiki og eftir það var stefnt að því að slíðra sverðin og að leikmaðurinn yrði áfram í Eyjum. Hann er þar enn en tækifærin eru af skornum skammti.

Grindavík er í leit að mannskap en liðið er sem stendur í 7. sæti Lengjudeildarinnar með 17 stig að loknum 13 leikjum. Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari liðsins, ræddi við Fótbolti.net eftir 4-5 tap gegn Aftureldingu á fimmtudag.

„Við erum náttúrulega dálítið þunnir. Við erum með 17-19 manna hóp af mönnum sem eru gjaldgengir í liðið hjá okkur. Við munum skoða alla möguleika, hvort það verði þessi eða hinn, hann verður bara að passa inn í það sem við erum að gera hérna. Það vantar smá attitude við erum að leita að gæja eða gæjum með attitude.“

Guðjón Pétur var spurður út í málið af Fótbolti.net en hann segist ekki vera fara neitt sem stendur.

„Ég er ekkert að kíkja í kringum mig. Það eru einhver lið búin að spyrjast fyrir og svona en ég hef ekki farið í neinar viðræður, hitt neinn eða talað við neinn. Eins og staðan er núna verð ég bara áfram hjá ÍBV.“

Félagaskiptaglugginn hér á landi lokar 26. júlí næstkomandi og verður forvitnilegt að sjá hvort Guðjón Pétur verður enn í Eyjum eður ei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×