Enski boltinn

Klopp telur að titil­bar­áttan á næsta ári verði ekki bara á milli Liver­pool og City

Atli Arason skrifar
Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. Getty Images

Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir það af og frá að Liverpool og Manchester City séu einu tvö liðin sem munu skara frammúr í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Liverpool og City báru höfuð og herðar yfir önnur lið á nýliðnu tímabili í ensku úrvalsdeildinni. City vann deildina með einu stigi meira en Liverpool og Chelsea varð í þriðja sæti heilum 18 stigum á eftir Liverpool.

Klopp ræddi við ESPN í Taílandi þar sem liðið er nú á undirbúningstímabilinu sínu fyrir komandi leiktímabil en knattspyrnustjórinn telur að næsta tímabil á Englandi verði ólíkt því síðasta.

„Við erum ekki það langt á undan. Það er alltaf þessi sami misskilningur að skoða bara heildar stigafjölda af síðasta tímabili,“ sagði Klopp.

„Við spiluðum fjórum sinnum við Chelsea á síðasta leiktímabili og við unnum þá ekki einu sinni. Við vorum góðir í þeim leikjum en yfir 90 mínútur þá tókst okkur ekki að sigra þá. Chelsea er með ótrúlega sterkt lið,“ bætti Klopp við.

Þýski knattspyrnustjórinn býst neflilega við því að Chelsea, Tottenham, Arsenal og Manchester United verði öll mun sterkari á komandi tímabili. Liverpool tapaði 4-0 gegn United í fyrsta leik undirbúningstímabilsins.

„Tottenham verður ekki lélegra á næsta tímabili. Arsenal er enn þá þarna uppi og Manchester United er að fara í gegnum nýtt upphaf, það eru allskonar hlutir í þessu.“

Í félagaskiptaglugganum í sumar hefur Liverpool meðal annars selt Sadio Mane, Takumi Minamino og Divock Origi en hefur styrkt sig með komu Darwin Nunez, Fabio Carvalho og Calvin Ramsey. 

Liverpool var grátlega nálægt því að vinna alla fjóra bikara sem voru í boði á síðasta tímabili. Klopp segir að liðið þurfi samt sem áður að horfa fram á veginn, árangur Liverpool á síðasta tímabili gefur liðinu ekkert á næsta tímabili.

„Ég hef engan áhuga á þeim stigafjölda sem við náðum á síðasta tímabili, ég hef bara áhuga á því sem við getum afrekað á næsta tímabili. Ég er jákvæður og bjartsýnn en samt ekki alveg viss. Við verðum þess vegna að halda áfram að berjast og sjá svo hver útkoman verður,“ sagði Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×