Erlent

Búið að handtaka árásarmanninn

Samúel Karl Ólason skrifar
Hinn 22 ára gamli Robert E. Crimo er talinn vera árásarmaðurinn.
Hinn 22 ára gamli Robert E. Crimo er talinn vera árásarmaðurinn. Facebook/AP

Lögregluþjónar í Highland Park, úthverfi Chicago í Bandaríkjunum, hafa handtekið manninn sem hóf skothríð á skrúðgöngu í bænum í dag. Maðurinn skaut minnst sex til bana og særði 24. 

Maðurinn heitir Robert E. Crimo og er 22 ára gamall. Fjölmiðlar vestanhafs segja lögregluþjóna hafa séð hann á tólfta tímanum í kvöld og handtekið hann eftir stutta eftirför.

Fréttin hefur verið uppfærð með tilliti til þess að Crimo var handtekinn skömmu fyrir miðnætti.

Búið er að hlúa að nítján af þeim sem særðust og útskrifa þau. Samkvæmt Chicago Sun-Times voru þau frá átta til 85 ára gömul. Fjögur af þeim særðu eru börn og er minnst eitt þeirra sagt í alvarlegu ástandi.

Fleiri slösuðust eftir að skothríðin hófst en rúmlega fjörtíu leituðu á sjúkrahús eftir árásina.

Hundruð flúðu undan skothríðinni en mikill fjöldi fólks hafði komið sér fyrir við leiðina sem fara átti skrúðgönguna. Myndbönd af vettvangi sýna að maðurinn hleypti tugum skota af á stuttum tíma, áður en hann flúði.

Riffill mannsins fannst á þakinu en Crimo var þrátt fyrir það sagður líklegur til að vera vopnaður og lýsti lögreglan honum sem hættulegum.

Hundruð áttu fótum sínum fjör að launa þegar skothríðin hófst.AP/Tyler Pasciak LaRiviere

Búið er að gefa út að fimm hinna látnu hafi verið fullorðin en ekki er vitað með þann sjötta. Flestir sem dóu gerðu það á vettvangi árásarinnar en einn lést af sárum sínum á sjúkrahúsi, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Crimo mun hafa komist upp á þak húss við götuna sem skrúðgangan fór um. Chicago Sun-Times hefur eftir lögreglunni að Crimo hafi verið vel falinn þegar hann hóf skothríðina.

Verið var að halda upp á þjóðhátíðardag Bandaríkjanna en skothríðin hófst um tuttugu mínútum eftir að skrúðgangan hófst.

Lögregluþjóna bar tiltölulega fljótt að garði og hafa þeir varið klukkustundum í að leita að árásarmanninum en án árangurs. Hundruð lögregluþjóna og annarra útsendara löggæslustofnana koma að leitinni og rannsókn á ódæðinu í Highland Park.

AP hefur eftir Joe Biden, forseta, að hann hafi skipað alríkisembættum að aðstoða við að hafa hendur í hári árásarmannsins.


Tengdar fréttir

Mannskæð skotárás á skrúðgöngu í Bandaríkjunum

Minnst sex liggja í valnum og minnst 24 eru særðir eftir að maður hóf skothríð á skrúðgöngu í úthverfi Chicago í Bandaríkjunum. Árásarmaðurinn gengur enn laus og er lögreglan með mikinn viðbúnað á svæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×