Erlent

Pútín vísar fullyrðingum Johnson til föðurhúsanna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Konur grípa víst til hernaðaraðgerða, segir Pútín og bendir á Margaret Thatcher máli sínu til stuðnings.
Konur grípa víst til hernaðaraðgerða, segir Pútín og bendir á Margaret Thatcher máli sínu til stuðnings.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fullyrti í gær að Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefði ekki ráðist inn í Úkraínu ef hann væri kona. Pútín hefur nú vísað staðhæfingu Johnson til föðurhúsanna og látið kné fylgja kviði.

„Ég vil bara rifja upp atburði nýliðins tíma, þegar Margaret Thatcher ákvað að grípa til hernaðaraðgerða gegn Argentínu vegna Falklandseyja. Þar tók kona ákvörðun um hernaðaraðgerðir,“ svaraði Pútín þegar hann var spurður út í ummælin.

„Þannig er það ekki fullkomlega rétt sem forsætisráðherra Bretlands segir um atburðina í dag,“ bætti hann við.

Forsetinn lét hins vegar ekki þar við sitja heldur gagnrýndi ákvörðun Thatcher, sem var tekin þegar Argentína gerði tilraun til að taka yfir Falklandseyjar í Suður-Atlandshafi.

„Hvar eru Falklandseyjar og hvar er Bretland?“ spurði Pútín. „Aðgerðir Thatcher réðust ekki af öðru en heimsvaldastefnu og löngun eftir því að staðfesta stöðu sína sem heimsveldi.“

Sjálfur hefur Pútín margoft þótt sýna groddaralegan yfirgang og viðleitni til að útvíkka og færa Rússland aftur til dýrðardaga Sovétríkjanna. Má þar nefna innrás hans í Georgíu og Úkraínu og innlimun Krímskaga.

Johnson sagði í gær að hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu væru fullkomið dæmi um „eitraða karlmennsku“ og þá gerðu hann og aðrir leiðtogar G7 grín að karlmennskutilburðum Pútín á fundi ríkjanna fyrr í vikunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×