Erlent

Fíllinn Happy telst ekki gæddur mannlegum eiginleikum

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Fílarnir í dýragarðinum í Bronx áður en þeir voru aðskildir.
Fílarnir í dýragarðinum í Bronx áður en þeir voru aðskildir. Wikimedia Commons

Hinn fimmtugi fíll Happy þarf áfram að dvelja í dýragarðinum í Bronx í New York eftir að æðsti dómstóll borgarinnar hafnaði kröfu dýravernarsamtaka um að honum yrði sleppt á þeim forsendum að Happy deildi vitrænum eiginleikum með mannfólkinu, eins og það var orðað í kröfugerðinnni.

Dómararnir voru ekki einróma í afstöðu sinni, 5 stóðu að meirihlutaálitinu, en 2 vildu fallast á rök dýraverndunarsamtakanna Nonhuman Rights Project.

Hættulegt fordæmi

Þau telja að Happy, sem er orðinn 51 árs, sé haldið föngnum ólöglega. Forseti dómsins, Janet DiFiore, segir að ekki leiki vafi á því að fílar séu gáfaðar skepnur, sem eigi skilið vernd og ástúð. Hins vegar eigi þeir ekki rétt á því að vera sleppt úr haldi á þeim forsendum að þeir séu gæddir mannlegum eiginleikum.

Þá benti dómarinn á að ef fallist yrði á kröfur samtakanna þá væri gefið fordæmi sem ekki væri hægt að sjá fyrir endann á. Hugsanlega yrði að sleppa þúsundum gæludýra lausum sem og húsdýrum sem notuð væru í landbúnaði eða þjónustustörfum. Til að mynda þyrfti hugsanlega að sleppa lausum öllum þeim hestum sem notaðir eru til að aka ferðamönnum um Central Park garðinn í New York og þar með yrði stór hópur kerrustjóra atvinnulaus.

Áralöng barátta

Barátta dýraverndarsamtakanna hefur nú staðið í 4 ár, en þau töpuðu málinu á tveimur lægri dómstigum. Þau vilja að Happy verði búið heimili í öðru af tveimur athvörfum fyrir þykkskinnunga sem finnast í Bandaríkjunum. Happy hafi í 40 ár þurft að gera sér að góðu þröngar vistarverur dýragarðsins, í þokkabót aðskilinn frá öðrum fílum garðsins. Hann sé því í raun fangi í dýragarðinum.

Annar dómaranna sem skilaði minnihlutaáliti sagði í greinargerð sinni að það sem ylli honum mestu áhyggjum væri að með því að neita dýrum um ákveðin grundvallarréttindi þá væri um leið verið að svipta manninn hæfileikanum og getunni til að sýna öðrum lifandi verum skilning, samúð og ástúð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.