Enski boltinn

Maðurinn bak­við kaup Liver­pool undan­farin ár gæti farið til Chelsea eða Man Utd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Michael Edwards ásamt Jürgen Klopp og Mike Gordon.
Michael Edwards ásamt Jürgen Klopp og Mike Gordon. Liverpool FC/Getty Images

Michael Edwards er einn færasti maður Englands og eflaust víðar í sínu fagi. Hann hefur séð um kaup og sölur leikmanna hjá Liverpool undanfarin ár en gæti nú fært sig um set til Manchester eða Lundúna.

Það er Sky Sports sem greinir frá en þar kemur fram að hinn 43 ára gamli Edwards búi í Manchester. Hann hefur aðstoðað Jürgen Klopp hjá Liverpool frá árinu 2016 og er að miklu leyti maðurinn á bakvið frábær kaup liðsins á þeim tíma.

Síðasta haust var greint frá því að Edwards myndi yfirgefa Liverpool í sumar en þá var óvíst hvað hann myndi taka sér fyrir hendur. Það virðist sem Edwards gæti starfað áfram í ensku úrvalsdeildinni eftir allt saman.

Annað hvort hjá hinum fornu fjendum Liverpool í Manchester United eða þá sem hluti af nýju stjórnunarteymi á Stamford Bridge í Lundúnum.

Þar sem Edwards er búsettur í Manchester er talið að Manchester United gæti reynt að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að fá Edwards í sínar raðir enda félagið ekki átt góðu gengi að fagna á leikmannamarkaðnum undanfarin ár.

Chelsea er einnig valmöguleiki þar sem nýr eigandi félagsins er mikið fyrir tölfræði og greiningu á leikmönnum. Þar myndi Edwards eflaust fá að móta stöðu sína hjá félaginu eftir sínum hugmyndum en það er alls óvíst hvort það sama yrði upp á teningnum hjá Man United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×