Erlent

Telur líklegt að Rússar skrúfi fyrir gasið í vetur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Flæði um Nord Stream 1 gasleiðsluna hefur aðeins verið um 40 prósent af fullri flutningsgetu að undanförnu.
Flæði um Nord Stream 1 gasleiðsluna hefur aðeins verið um 40 prósent af fullri flutningsgetu að undanförnu. Stefan Sauer/picture alliance via Getty Images)

Forstjóri Alþjóðaorkumálastofnunarinnar telur líklegt að Rússar muni skrúfa fyrir gasleiðslurnar til Evrópu í vetur.

Í viðtali við BBC sagði Fatih Birol, forstjóri stofnunarinnar, að mögulega væri þetta ekki líklegasti kosturinn í stöðunni en engu að síður eitthvað sem ríki Evrópu þyrftu að búa sig undir.

Undanfarin ár hafa Rússar flutt inn gríðarlegt magn af gasi til Evrópu. Þar er gasið nýtt til orkuframleiðslu sem og húshitunar svo dæmi séu tekin.

Innrás Rússa í Úkraínu hefur orðið til þess að ríki Evrópu hafa reynt að draga úr þörf á rússnesku gasi. Fyrir stríð er talið að um fjörutíu prósent af öllu gasi sem nýtt var í Evrópu kæmi frá Rússlandi.

Nú er talið að um tuttugu prósent af gasinu komi frá Rússlandi. Greint hefur verið frá því að undanförnu hafi Rússar sent frá sér minna af gasi en gert var ráð fyrir.

Rússar hafa kennt tæknilegum örðugleikum um og vísað því á bug að minnkandi framboð sé með ráðum gert af þeirra hálfu.

Móttökustað fyrir gas frá Rússlandi nærri Magdeburg í Þýskalandi.Patrick Pleul/picture alliance via Getty

Birol telur hins vegar að mögulegt sé að Rússar séu að minnka gasstreymið til að vinna sér inn taktíska stöðu fyrir veturinn.

Bendir hann á að minnkandi framboð frá Rússum að undanförnu geri það að verkum að erfitt sé fyrir ríki Evrópu að fylla á gasbirgðirnar fyrir veturinn.

„Ég myndi ekki útiloka það að Rússar finni einhver vandamál hér og þar og afsakanir til þess að senda minna af gasi en samið hefur verið um. Þeir munu jafn vel skrúfa alveg fyrir gasið,“ sagði Birol.

Ríki Evrópusambandsins, auk annarra ríkja, hafa að undanförnu lagt umfangsmiklar efnahagsþvinganir á rússneskt efnahagslíf, til þess að refsa rússneskum stjórnvöldum fyrir innrásina í Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×