Erlent

Ís­lenskur frétta­maður á vegum Pútíns tók við­tal við meintan stríðs­glæpa­mann

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Haukur tekur viðtal við Graham Phillips við höfn Mariupol.
Haukur tekur viðtal við Graham Phillips við höfn Mariupol. Facebook

Haukur Hauksson hefur ferðast á átakasvæði í Úkraínu í boði rússneskra stjórnvalda. Nýlega tók Haukur viðtal við Graham Phillips, annan sjálfstætt starfandi blaðamann, sem nú er sakaður um stríðsglæp.

Fjallað var um ferðir Hauks um Úkraínu í Fréttablaðinu í síðustu viku. Þar segist hann vera á vegum fréttamannaþjónustu varnarmálaráðuneytis Rússlands og kveðst mjög gagnrýninn á þær fréttir sem birtast af stríðinu í vestrænum fjölmiðlum. Haft er eftir Hauki að hann telji Úkraínu hafa þróast út í bananalýðveldi Vesturlanda og að Rússar hafi fengið puttann frá NATO.

Haukur hefur sagt frá ferðalagi sínu á Facebook og þann 19. júní síðastliðinn birti Haukur viðtal við Graham Philips á höfn í Mariupol. Þar segir Graham borgina hafa þurft að sitja undir stjórn „Nasistanna“ en að rússneski herinn hafi gert vel í því að frelsa borgina. Nú séu horfur því góðar í Mariupol.

Viðtalið má sjá í heild sinni á Facebook síðu Hauks.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, bendir á það á Twitter að Graham Philips sé nú sakaður um stríðsglæpi í breska þinginu.

Í umfjöllun Guardian um málið segir að Phillips hafi tekið viðtöl við breska hermenn sem börðust við hlið Úkraínuhers og voru fangaðir af Rússum og dæmdir til dauða fyrir óviðurkenndum dómstóli aðskilnaðarsinna í Mariupol. Maðurinn sem Graham Phillips tók viðtal við heitir Aiden Aslin.

Breski þingmaðurinn Robert Jenrick sagði í breska þinginu að myndband sem Phillips birti af Aslin „í handjárnum, illa særður og tekinn nauðugur í viðtal í áróðursskyni“ sé brot á Genfarsáttmálanum sem fjallar um meðferð stríðsfanga. „Blaðamaðurinn Graham Philips gæti verið kærður fyrir stríðsglæp,“ sagði Jenrick jafnframt.

Að sögn breskra fjölmiðla var réttarhöldunum í Mariupol ætlað að fæla burt stríðsglæparéttarhöld gegn rússneskum hermönnum í Kænugarði.

Í umfjöllun Guardian er skýrt nánar frá því hvernig Philips, einu sinni opinber starfsmaður í Nottingham á Englandi varð rödd yfirvalda í Kreml í Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×