Erlent

Draga úr notkun Bandaríkjahers á jarðsprengjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Alþjóðlegt viðvörunarskilti við jarðsprengjusvæði í Bagram, fyrrverandi herflugvöll Bandaríkjahers í Afganistan.
Alþjóðlegt viðvörunarskilti við jarðsprengjusvæði í Bagram, fyrrverandi herflugvöll Bandaríkjahers í Afganistan. AP/Mikhail Metzel

Ríkisstjórn Joes Biden Bandaríkjaforseta tilkynnti í dag að Bandaríkjaher hætti notkun á jarðsprengjum utan Kóreuskaga. Jarðsprengjur verða þúsundum manna að bana á hverju ári, aðallega börnum.

Ákvörðun Bandaríkjastjórnar kemur í kjölfar árslangrar endurskoðunar á notkun jarðsprengna. Donald Trump, forveri Biden í embætti, hafði rýmkað heimildir hersins til að nota sprengjurnar.

Samkvæmt nýrri stefnu Bandaríkjastjórnar verða jarðsprengur nú aðeins notaðar til þess að verja Suður-Kóreu fyrir innrás frá Norður-Kóreu, að sögn AP-fréttastofunnar.

Bandaríkin uppfylla því enn ekki Ottawa-sáttmálann frá 1997 en honum var ætlað að útrýma notkun jarðsprengna í heiminum.

Jarðsprengjur sem eru grafnar í jörðu eða lagðar á jörðu í stríðsátökum geta verið virkar og kostað mannslíf mörgum árum eftir að stillt hefur verið til friðar. Bandarísk yfirvöld áætla að um sjö þúsund manns látist á hverju ári af völdum jarðsprengna vítt um og breitt um heiminn. Mikill meirihluti þeirra sem látast eru óbreyttir borgarar og að minnsta kosti helmingur fórnarlambanna er talinn vera börn, að því er segir í frétt Washington Post.

Rússar leggja nú jarðsprengjur í innrás sinni í Úkraínu. Adrienne Watson, talskona þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, fordæmdi notkun Rússa á sprengjunum í yfirlýsingu í dag.

„Heimurinn hefur enn og aftur orðið vitni að hrikalegum afleiðingum sem jarðsprengjur geta haft í samhengi við hrottalegt og tilhæfulaust stríð Rússlands í Úkraínu þar sem rússneski herinn notar þessi og önnur hergögn sem valda óbreyttum borgurum og borgaralegum hlutum gríðarlegum skaða,“ sagði Watson.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.