Rússneska herskipið sigldi inn í landhelgi Danmerkur án leyfis klukkan 00:30 í nótt að íslenskum tíma og aftur nokkrum klukkustundum síðar. Þetta segir danski herinn í tilkynningu. Skipið yfirgaf landhelgina eftir að danski herinn náði við það sambandi. Dönsk yfirvöld segja atvikið „óásættanlega ögrun.“
„Einstaklega óábyrg, viðbjóðsleg og algjörlega óásættanleg rússnesk ögrun á miðri #fmdk,“ skrifaði Jeppe Kofod utanríkisráðherra Danmerkur í tísti og vísaði þar til Lýðræðishátíðar Danmerkur. Hátíðin er haldin ár hvert og hátt settir embættismenn mæta á hana, þar á meðal Kofod og Mette Frederiksen forsætisráðherra.
„Eineltistilburðir duga ekki gegn Danmörku,“ skrifaði Kofod og bætti við að rússneski sendiherrann hafi verið boðaður til fundar vegna atviksins.
Et russisk militærfartøj har i nat to gange krænket dansk territorialfarvand
— Jeppe Kofod (@JeppeKofod) June 17, 2022
En dybt uansvarlig, grov og fuldstændig uacceptabel russisk provokation midt under #fmdk
Bøllemetoder virker ikke mod Danmark
Russiske ambassadør hasteindkaldt i Udenrigsministeriet#dkpol #WeAreNATO
Morten Bodskov varnarmálaráðherra sagði að herskipið hafi ekki ógnað hátíðinni eða gestum hennar.
„Við verðum bara að sætta okkur við það að Eystrasaltið verður svæði sem deilt verður um,“ sagði Bodskov og bætti því við að þetta er ekki fyrsta sinn sem Rússar fari inn fyrir landhelgi Danmerkur í leyfisleysi.