Íslenski boltinn

Mögnuð töl­fræði mark­varðarins Murp­hy

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Samantha Leshnak Murphy hefur verið hreint út sagt mögnuð í sumar.
Samantha Leshnak Murphy hefur verið hreint út sagt mögnuð í sumar. Keflavík

Samantha Murphy er heldur betur betri en engin. Markvörðurinn hefur verið hreint út sagt mögnuð í marki Keflavíkur í Bestu deild kvenna á leiktíðinni.

Keflavík gerði mögulega fjárfestingu ársins er liðið samdi við Murphy um að leika milli stanganna á Suðurnesjunum (og víðar) í sumar. Þegar Besta deild kvenna er hálfnuð er Keflavík í 7. sæti með 10 stig.

Liðið hefur fengið á sig 13 mörk en þau ættu að vera mun fleiri ef rýnt er í tölfræði liðsins. Á einhvern ótrúlegan hátt vann Keflavík 1-0 sigur á Stjörnunni þó svo að öll tölfræði hafi bent til þess að Stjarnan hafi átt að vinna.

Ef rýnt er í xG (vænt mörk) tölfræðina þá hefði Stjarnan átt að skora að lágmarki fjögur mörk í leiknum á meðan það var hreint út sagt kraftaverk að Keflavík hafi skorað.

Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, fréttaritari á Fótbolti.net, birti enn magnaðri tölfræði á Twitter-síðu sinni. Þar kemur í ljós að Murphy ber einfaldlega höfuð og herðar yfir aðra markverði deildarinnar þegar kemur að því að halda knettinum út úr markinu.

Ef marka má tölfræði Guðmundar Aðalsteins þá ætti Murphy – og Keflavík – að vera búin að fá á sig 10 mörk meira í sumar. Keflavík ætti því að vera búið að fá á sig 23 mörk en ekki 13.

Sama tölfræði segir að Sandra Sigurðardóttir (Valur) ætti að vera búin að fá á sig tæplega fjórum mörkum meira og Telma Ívarsdóttir (Breiðablik) rúmlega þremur mörkum meira. Þær tvær eru báðar í landsliðshópi Íslands fyrir Evrópumótið sem hefst í næsta mánuði.

Það verður að hrósa Keflavík fyrir að landa þessum frábæra markverði en það má búast við að hún verði gríðarlega eftirsótt eftir að tímabilinu lýkur.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×