Umfjöllun og viðtöl: ÍBV-Víkingur 0-3 | Fimmti sigur Víkings í síðustu sex leikjum

Andri Már Eggertsson skrifar
Víkingar eru mættir til Eyja.
Víkingar eru mættir til Eyja. Vísir/Hulda Margrét

Víkingur Reykjavík vann sannfærandi útisigur á ÍBV 0-3. Gestirnir spiluðu afar vel í fyrri hálfleik sem skilaði tveimur mörkum. Eyjamenn voru töluvert betri í seinni hálfleik en nýttu ekki færin sín og Ari Sigurpálsson kláraði síðan leikinn er hann skoraði þriðja mark Víkings. 

Það var mikill munur á liðunum áður en farið var í landsleikjahlé. Víkingur hafði unnið fjóra af síðustu fimm leikjum á meðan ÍBV hafði tapað fjórum af síðustu fimm leikjum.

Það tók Víking Reykjavík aðeins átta mínútur að gera fyrsta mark leiksins. Pablo Punyed átti fyrirgjöf frá hægri sem rataði beint á Oliver Ekroth sem skallaði boltann í netið. Pablo þurfti síðan að fara af velli tæplega sex mínútum síðar vegna meiðsla.

Heimamenn voru í allskonar vandræðum í vörninni. Erlingur Agnarsson slapp einn í gegn þar sem Eiður Aron Sigurbjörnsson og Elvis Bwomono skullu saman við að reyna verjast sendingu Kristals Mána en Guðjón Orri Sigurjónsson, markmaður ÍBV, gerði vel í að loka á Erling.

Erlingur Agnarsson kom síðan Víkingi Reykjavík í tveggja marka forystu. Guðjón Orri varði skot Kristals Mána en boltinn datt beint fyrir Erling sem lagði boltann snyrtilega í markið.

ÍBV sýndi baráttu á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks. Heimamenn sköpuðu sér nokkur færi en það reyndi lítið á Þórð Ingason, markmann Víkings, og var staðan 0-2 í hálfleik.

ÍBV mætti út í seinni hálfleik með mikla orku og sett pressu á Víking. Eyjamenn voru óheppnir að skora ekki þriðja mark leiksins á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks. Felix Örn Friðriksson átti skot í slána og skömmu síðar skaut Telmo Ferreira Castanheira í stöngina.

Ari Sigurpálsson gerði út um leikinn þegar tæplega fimmtán mínútur voru til leiksloka. Kristall Máni átti frábæra sendingu inn fyrir vörn ÍBV og Ari gerði vel í að þruma boltanum framhjá Guðjóni Orra í markinu.

Það var með ólíkindum að ÍBV hafi ekki skorað í uppbótatíma en heimamenn fengu hvert dauðafærið á fætur öðru en fóru afar illa með tækifærin og Víkingur Reykjavík vann á endanum 0-3 sigur.

Af hverju vann Víkingur?

Víkingur Reykjavík var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik sem skilaði tveimur mörkum. Eyjamenn voru sjálfum sér verstir í síðari hálfleik þar sem þeir fengu urmul af færum en nýttu þau ekki. 

Hverjir stóðu upp úr?

Þórður Ingason varði mark Víkings þar sem Ingvar Jónsson var frá vegna meiðsla. Þórður átti stórleik og varið þó nokkur dauðafæri afar vel. 

Kristall Máni Ingason var allt í öllu í leik Víkings. Kristall átti frábæra sendingu þegar hann lagði upp mark á Ara Sigurpálsson og einnig átti hann skot sem varð til þess að Erlingur Agnarsson skoraði. 

Hvað gekk illa?

Andri Rúnar Bjarnason á í raun að skammast sín eftir þessa frammistöðu. Andri Rúnar hefur ekki skorað í síðustu sex leikjum. Andri fékk nokkur dauðafæri en hann gat einfaldlega ekki keypt sér mark í kvöld. 

Hvað gerist næst?

ÍBV mætir Fram í Úlfarsárdal klukkan 18:00 næsta mánudag.

Forkeppni fyrir undankeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta er næst á dagskrá hjá Víkingi Reykjavík. Á þriðjudaginn mætast Víkingur og Levadia Tallinn klukkan 19:30.

Kristall: Frábært að byrja svona eftir landsleikjapásu

Kristall Máni var ánægður með 0-3 sigur á ÍBVVísir/Hulda Margrét

Kristall Máni Ingason, leikmaður Víkings Reykjavíkur, var ánægður með sigur í Vestmannaeyjum.

„Þetta var góður leikur og gaman að byrja svona eftir landsleikjapásu,“ sagði Kristall Máni hæstánægður í samtali við Vísi eftir leik.

Kristall var ánægður með hvernig Víkingur lét ekki ferðalagið til Vestmannaeyja á sig fá.

„Þetta hefði geta orðið helvíti erfitt en við mættum tilbúnir til leiks og við létum ekki sjóferðina á okkur fá.“

Kristall Máni var allt í öllu í landsleikjapásunni og var hann ánægður með að vera í byrjunarliðinu í fyrsta leik.

„Ég vill spila sem flesta leiki og var fínt að deildin fór af stað í vikunni.“

Kristall sagði að lokum að markmiðin væru skýr í næsta leik gegn Fram það átti bara að sækja sigur.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira