Erlent

Lula með yfirburði yfir Bolsonaro í könnunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Gengið hefur á ýmsu hjá Lula da Silva frá því að hann lét af embætti sem forseti árið 2011. Hann var sakfelldur fyrir spillingu, bannað að bjóða sig fram til forseta en dómurinn síðar ógiltur.
Gengið hefur á ýmsu hjá Lula da Silva frá því að hann lét af embætti sem forseti árið 2011. Hann var sakfelldur fyrir spillingu, bannað að bjóða sig fram til forseta en dómurinn síðar ógiltur. Vísir/EPA

Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti Brasilíu og leiðtogi vinstrimanna, mælist með afgerandi forskot á Jair Bolsonaro, sitjandi forseta, í skoðanakönnunum fyrir forsetakosningar sem fara fram í október.

Lula mælist með 46% fylgi í fyrri umferð í nýrri skoðanakönnun sem var birt með, sextán prósentustigum meira en Bolsonaro, næsti keppinautur hans. Í seinni umferð þar sem kosið væri á milli þeirra tveggja mælist Lula með 54% gegn 32% Bolsonaro.

Niðurstöðurnar eru í samræmi við aðrar nýlegar kannanir. Sumar þeirra benda til þess að Lula gæti unnið með allt að tuttugu og fimm prósentustiga mun, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Bolsonaro forseti hefur farið mikinn um möguleg kosningasvik og troðið illsakir við hæstarétt og yfirkjörstjórn landsins. Stjórnmálaskýrendur telja að þetta kunni að kosta hann stuðning á pólitísku miðjunni. Sama skoðanakönnun sem var birt í dag sýnir að 47% eru neikvæðir í garð ríkisstjórnar Bolsonaro.

Lula var forseti Brasilíu frá 2003 til 2010. Saksóknarar ákærðu hann fyrir aðild að meiriháttar spillingarmáli sem skók brasilísk stjórnmál árið 2016. Hann var sakfelldur fyrir mútuþægni í tengslum við ríkisolíufyrirtækið Petrobras ári síðar og sat í fangelsi í á annað ár.

Dómstóll bannaði Lula að bjóða sig fram til forseta árið 2018. Spillingardómar yfir Lula voru ógiltir í fyrra og gat hann þá skráð sig aftur í framboð til forseta í ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×