Erlent

Einn lést þegar hrað­lest fór af teinunum í Suður-Kína

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Viðbragðsaðilar hjálpa farþega út úr ónýtri lestinni sem fór af teinunum í Rongjiang-sýslu.
Viðbragðsaðilar hjálpa farþega út úr ónýtri lestinni sem fór af teinunum í Rongjiang-sýslu. Ógetið/AP

Lestarstjóri lést og átta aðrir slösuðust þegar hraðlest fór af teinunum á leiðinni til Rongjiang-sýslu í Guizhou-héraði í Suður-Kína. Lestin klessti á aurskriðu sem hafði fallið á teinana með þeim afleiðingum að hún fór af teinunum.

Ríkismiðillinn CCTV greinir frá lestarslysinu sem átti sér stað klukkan hálf ellefu að staðartíma í morgun. Miðillinn greinir einnig frá því að lestarstjórinn hafi látist af sárum sínum á spítala. Einn áhafnarmeðlimur og sjö farþegar slösuðust í slysinu en hinir 136 farþegarnir voru fluttir örugglega burt af slysstað. Atvikið er til rannsóknar hjá yfirvöldum samkvæmt CCTV.

Frá árinu 2008 hefur Kína byggt upp háhraðajárnbrautarkerfi sitt sem er í heildina 37.900 kílómetrar og sker landið í þvers og kruss til að tengja saman allar stærstu borgir þess. 

Í frétt CNN um lestarslysið kemur fram að engin stórvægileg atvik hafi átt sér stað á járnbrautarkerfinu síðan 2011 þegar 40 létust og næstum 200 slösuðust þegar tvær hraðlestir rákust saman nálægt Wenzhou í Zheijang-héraði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×