Íslenski boltinn

Goðsögnum Keflavíkur hent í ruslið og nú skal hefnt

Sindri Sverrisson skrifar
Hólmar Örn Rúnarsson kominn í ruslatunnuna.
Hólmar Örn Rúnarsson kominn í ruslatunnuna. Skjáskot/Youtube

Það er sannkallaður hefndarhugur í nokkrum fyrrverandi leikmönnum Keflavíkur sem klæðast Njarðvíkurtreyju annað kvöld í Reykjanesbæjarslag í Mjólkurbikar karla í fótbolta.

Hólmar Örn Rúnarsson, Hörður Sveinsson og Einar Orri Einarsson léku samtals 571 deildarleik fyrir Keflavík en eftir vonbrigðatímabilið 2018, þar sem Keflavík féll úr efstu deild án sigurs, voru þeir allir farnir frá félaginu.

„Eftir slakt tímabil var skuldinni skellt á okkur félagana og okkur beinlínis hent í ruslið í orðsins fyllstu merkingu – eftir allt sem við höfðum gert fyrir félagið,“ er haft eftir Hólmari á vef Víkurfrétta.

Núna er þríeykið í liði Njarðvíkur; Hólmar sem þjálfari en Einar og Hörður sem leikmenn. Þar er einnig miðvörðurinn Marc McAusland sem fór úr liði Keflavíkur til Grindavíkur eftir sumarið 2018 og svo þaðan í lið Njarðvíkur ári síðar í stað þess að hann sneri aftur til Keflavíkur.

Þessi mál eru til umfjöllunar í skemmtilegu myndbandi sem unnið var fyrir bikarleikinn sem fram fer á HS Orku vellinum, heimavelli Keflvíkinga, annað kvöld klukkan 19.15. Myndbandið má sjá hér að neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.