Enski boltinn

Leikmenn Real Madrid segja að orð Mo Salah hafi kveikt í þeim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah eftir leikinn um helgina þar sem Liverpool liðið rétt missti af enska meistaratitlinum.
Mohamed Salah eftir leikinn um helgina þar sem Liverpool liðið rétt missti af enska meistaratitlinum. Getty/Alex Livesey

Mohamed Salah vildi mæta Real Madrid frekar en Manchester City í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og það fór ekkert fram hjá leikmönnum Real Madrid.

Að mati leikmanna Real Madrid þá sýndi Salah spænska félaginu vanvirðingu með slíkri yfirlýsingu og einn þeirra segir að þeir ætli að nýta sér það í úrslitaleiknum í París.

Salah sagði þetta eftir undanúrslitaleik Liverpool á móti Villarreal en Real Madrid og Manchester City spiluðu kvöldið eftir.

„Ég vil mæta Madrid ef ég segi alveg eins og er. City er mjög erfitt lið að spila við og við höfum mætt þeim oft á þessu tímabili. Ef þú spyrð mig þá myndi ég segja Madrid,“ sagði Mohamed Salah eftir leikinn.

Hann bætti við: „Af því að við töpuðum úrslitaleiknum á móti þeim þá vil ég mæta þeim aftur og vinna núna,“ sagði Salah.

„Þetta eru auðvitað orð sem allir geta túlkað á sinn hátt. Ég er mótherji hans og í mínum augum er þetta vanvirðing við merki Real Madrid og leikmenn liðsins,“ sagði Fede Valverde, miðjumaður Real Madrid, í viðtali við Club del Deportista tímaritið.

„Það eina sem við verðum að gera er að gera okkar besta og sýna af hverju við erum í þessum úrslitaleik. Við skulum vona að við náum að færa stuðningsmönnum okkar og Real Madrid annan bikar,“ sagði Valverde.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×