Íslenski boltinn

ÞÞÞ hættur í fótbolta en ætlar sér stóra hluti sem dómari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórður Þorsteinn Þórðarson lék með ÍA, FH og HK í efstu deild.
Þórður Þorsteinn Þórðarson lék með ÍA, FH og HK í efstu deild. stöð 2

Skagamaðurinn Þórður Þorsteinn Þórðarson hefur lagt skóna á hilluna, aðeins 27 ára. Hann er þó ekki hættur afskiptum af fótbolta því hann hefur snúið sér að dómgæslu og ætlar sér mjög langt á því sviði.

Guðjón Guðmundsson hitti Þórð á dögunum og forvitnaðist af hverju hann ákvað að venda kvæði sínu í kross og gerast dómari.

„Áhuginn var byrjaður að dvína og þar sem ég var ekki hundrað prósent í þessu ákvað ég að slaufa þessu,“ sagði Þórður sem hlakkar til að takast á við dómarahlutverkið.

„Þetta er spennandi verkefni, ég tel mig geta náð langt í þessu og ætla að reyna að setja alla mína einbeitingu á þetta.“

Klippa: Viðtal við Þórð Þorstein

Þórður viðurkennir að hann hafi ekki alltaf verið barnanna bestur þegar hann var að spila og hafi eflaust verið erfiður við dómarana.

„Það er alveg óhætt að segja það. Þegar ég tók þrekprófið sagði ég við nokkra hvort ég þyrfti ekki að biðja menn afsökunar áður en ég kæmi inn. En svo var ekki. Þetta var bara í hita leiksins og gleymt og grafið.“

Þórður segir að bakgrunnur sinn sem leikmaður í efstu deild hjálpi sér í nýja hlutverkinu.

„Það sem ég hef helst fram að færa í þessu er minn leikskilningur og ég held að það geti hjálpað mér mjög mikið sem dómari,“ sagði Þórður.

Allt viðtalið við Þórð má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.