Umfjöllun og viðtöl: Valur - KR 9-1 | Valskonur burstuðu KR á Hlíðarenda

Árni Jóhannsson skrifar
visir-img
vísir/vilhelm

Munurinn á Val og KR var sjáanlegur á löngum köflum í dag þegar fyrrnefnda liðið gjörsigraði gesti sína í 5. umferð Bestu deildar kvenna. Sóknarþunginn kom í bylgjum og 10 mörk litu dagsins ljós í heild sína en níu þeirra voru Valsmegin.

Leikurinn byrjaði á góðu nótunum fyrir bæði lið en heimakonur voru meira með boltann en bæði lið náðu að skapa sér skotfæri á fyrstu 10 mínútunum og KR varðist fimlega. Gestirnir reyndu að sækja hratt á KR þegar þær unnu boltann og áttu ágætis spilkafla í upphafi leiks.

Valskonur komust yfir á 15. mínútu og var þar að verki Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir. Hornspyrna var kýld út en ekki lengra en að vítapunktinum og þar var Þórdís klár, mundaði skot fótinn og skoraði undir varnarmann sem var kominn á línuna en Björk Björnsdóttir, markvörður var ekki búinn að skila sér eftir stutt úthlaup.

KR-ingar létu ekki eitt mark slá sig út af laginu og voru búnar að jafna metin aðeins sex mínútum síðar. Guðmunda Brynja Óladóttir slapp þá ein í gegnum vörn heimakvenna eftir góða sendingu Marcellu Marie Barberic. Guðmunda gerði allt rétt og skoraði framhjá Söndru Sigurðar í markinu.

En þá dundi fyrsta ógæfutímabil KR-inga yfir. Valskonur sáu augljóslega að það þyrfti að keyra sig upp og að KR væri sýnd veiði en ekki gefin þó að KR sitji á botni deildarinnar. Heimakonur skoruðu þrjú mörk á fjórum mínútum og gerðu út um leikinn. Hvert markið var öðru glæsilegra en fyrst á vettvang var Elín Metta Jensen sem dansaði í teig gestanna áður en hún lagði boltann í netið. Því næst skoraði Ída Marín Hermannsdóttir mark af 30 metra færi þar sem boltinn flaug í slána og inn fyrir línuna áður en Þórdís Hrönn var aftur á ferðinni með gott hægri fótar skot. Staðan 4-1 og KR slegnar í rot á stuttum tíma.

Fyrri hálfleikur leið undir lok án teljandi atvika og allir sem voru að horfa á áttuðu sig á því að leik væri lokið.

Valskonur byrjuðu seinni hálfleikinn eins vel og hægt er byrja. Á fyrstu mínútu hálfleiksins skoraði Ásdís Karen Halldórsdóttir fimmta mark heimakvenna eftir góða stungusendingu Elínar Mettu sem skar vörn KR í sundur. Ásdís sólaði markvörðinn og sendi boltann í stöng og inn.

Leikurinn varð mjög rólegur fyrir vikið enda úrslit ráðin og Valur hélt boltanum vel innan síns liðs. KR rankaði þó við sér, náði nokkrum fínum köflum og sóknum áður en heimakonur skoruðu næsta mark. 

Þar var að verki Elísa Viðarsdóttir sem tók frákast eftir góða markvörslu Bjarkar í markinu og skallaði knöttinn inn fyrir línuna. Tíu mínútum síðar dundi annar ógæfukafli yfir KR. Þær virtust gleyma því að leikurinn er 90 mínútu plús uppbót og leyfðu Valskonum gjörsamlega að keyra yfir sig í lok leiks. Aftur skoraði Valur þrjú mörk á fjórum mínútum og lokastaðan ekki glæsileg fyrir KR-inga. 

Valskonur voru hinsvegar mjög ánægðar en það voru varamennirnir Bryndís Arnar Níelsdóttir og Cyera Makenzie Hintzen sem sáu um seinustu mörkin. Bryndís skoraði tvö mörk og voru þau þannig að hver framherji í heiminum yrði ánægð með mörkin. Skalli og svo frákast eftir hreinsun sem var vel klárað. Cyera hafði skorað mark áður sem hafði verið dæmt af en skoraði löglegt mark á 90. mínútu og aftur var komist inn fyrir vörnina, markvörðurinn sólaður og boltinn lagður í netið. 

Dómarinn flautaði síðan af og Valskonur gengu stoltar af velli og himinlifandi með að hafa náð að tvöfalda markaskorun sína í sumar. KR þarf að líta í eigin barm en síðustu mörkin eru líklega talin algerlega óþörf að þeirra mati.

Afhverju vann Valur?

Valskonur eru mikið, mikið betra fótboltalið en KR. Þær hafa mikið reynslumeiri leikmenn innanborðs og betri og sýndu yfirburði sína algjörlega í dag. KR þurfa að læra af þessu en það var ekki mikið sem hægt er að taka jákvætt út úr þessum leik.

Hvað gekk vel?

Markaskorun Valsara gekk vel. Pétur Pétursson þjálfari sagði við blaðamann eftir leik að ánægjulegast hafi verið að nýta færin sem voru sköpuð og talaði um að hann loksins væri færanýtingin góð.

Hvað gekk illa?

KR gekk illa. Þær byrjuðu vel en duttu algjörlega niður á köflum í leiknum og leyfðu Val að keyra yfir sig.

Hvað næst?

Valskonur tylla sér á toppinn í allavega smá stund í kvöld. Þær hljóta að reyna að nýta sér meðbyrinn sem þessi leikur gaf í næsta verekefni sem er af stærri gerðinni. Breiðablik og Valur eigast við í næstu umferð og oft hafa þessar viðureignir verið lykill í að vinna titilinn.

KR þarf að sleikja sárin fljótt því næst fá þær Aftureldingu í heimsókn í slag nýliðanna og möguleiki er á að næla sér í stig þar.

Þórdís Hrönn: Þurftum að rífa okkur upp

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir var að vonum ánægð með úrslitin í kvöld og með sína eigin frammistöðu. Hún var spurð að því hvort þetta hafi verið jafn þægilegt og þetta hafi litið út fyrir að vera úr blaðamannastúkunni.

„Þetta var ekki kannski þægilegt en þetta var öruggur sigur. Þegar þær jöfnuðu þá þurftum við að rífa okkur í gang því þetta var ekki alveg að ganga hjá okkur. En þegar við komumst aftur yfir þá rúllaði þetta inn og við nýttum færin en það hefur dálítið vantað. Það var jákvætt fyrir okkur að það hafi ekki bara verið varnarmennirnir sem eru að skora, það þurfti að rífa þær aðeins niður á jörðina enda orðnar ansi kokhraustar, þannig að við sóknarmennirnir þurftum að hífa okkur upp og byrja að skora eitthvað.“

Þórdís var þá spurðu hvort eitthvað vanmat hafi verið upp á teningnum vitandi að þetta var neðsta liðið sem þær voru að fara að spila við í kvöld. 

„Alls ekki. Það er ekki hægt að vanmeta neitt lið í þessari deild að mínu mati. Þær eru skipulagðar en þegar við dettum í gang þá er erfitt að stoppa okkur. Við náðum að nýta færi og búa okkur til færi í kvöld. Ef þetta gefur okkur ekki sjálfstraust þá veit ég ekki hvað það ætti að vera en við þurfum að byggja ofan á þetta og laga það sem hefur vantað hjá okkur.“

Þórdís skoraði sjálf tvö mörk og var hættuleg fram á við. Hún var spurð aðeins út í sjálfa sig og hvernig henni litist á framhaldið.

„Mér líður vel. Gott að geta skorað í og hjálpað liðinu. Það er mikil samkeppni í liðinu þannig að maður þarf að vera tilbúin að leggja því lið.“

Jóhannes Karl: Gáfumst upp

Þjálfari KR, Jóhannes Karl Sigursteinsson, var náttúrlega ekki sáttur með úrslitin og líka frammistöðu liðsins síns í kvöld.

„Þetta var allt of stórt tap. Það eru núll stig sama hvernig maður tapar leiknum en ég er ekki sáttur við framlagið í dag. Ég er ósáttur við að við gefumst upp, sérstaklega út af því að við byrjuðum ágætlega. Þetta var fínt fram að 30 mínútu en þá fáum við á okkur þrjú mörk á fjórum mínútum og það klárar leikinn. Það er alveg sama hvort við töpum 4-1 eða 9-1 en mér fannst sá kafli algjörlega óásættanlegur. Við gerum klaufaleg mistök og stóðum ekki pliktina nógu vel í dag.“

Eftir síðasta leik talaði Jóhannes um að það hafi verið vaxandi í leik liðsins og var spurður hvort frammistaðan í dag hafi verið skref aftur á bak.

„Klárlega. Við erum náttúrlega að spila við Val, sem er frábært lið, en við erum að gefa þeim allt of mikinn tíma á boltanum og vorum ekki nóg ákafar og gáfum þeim ekki nógu mikla pressu.“

Jóhannes var þá spurður hvort þetta væri andlega hliðin sem þyrfti að laga eða skipulagslega hliðin sem vantaði upp á.

„Blanda af báðu líklega. Við byrjum mótið erfiðlega og það kannski situr í okkur. Við þurfum að fara í gegnum báða þætti, skoða hausinn og hugarfarið og hvernig við getum lagað þá þætti og að sama skapi hvað það er í skipulaginu sem er að klikka.“+

Að lokum var Jóhannes spurður að því hvort eitthvað jákvætt hafi verið við leikinn í kvöld.

„Guðmunda skoraði mark. Það var gott að skora mark. Við fengum síðan tækifæri í stöðunni 0-0 og 1-1 en það er allt of mikið að varnarlega. Þá verðum við að kanna hvað er að gerast þegar við erum að fá svona mörg mörk á okkur með svona stuttu millibili. Við þurfum að laga það ef við ætlum að gera eitthvað í þessu móti.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira