Enski boltinn

Mo Salah mætti með landa sinn í hjólastól inn í klefa Liverpool eftir bikarúrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah fagnar eftir bikarúrslitaleikinn með Thiago sem er með Salah grímu sem gekk á milli manna í fögnuðinum.
Mohamed Salah fagnar eftir bikarúrslitaleikinn með Thiago sem er með Salah grímu sem gekk á milli manna í fögnuðinum. AP/Ian Walton

Það var mikill fögnuður í búningsklefa Liverpool eftir sigurinn á Chelsea í bikarúrslitaleiknum á Wembley um helgina en þar voru ekki bara leikmenn og starfsmenn nýkrýndu bikarmeistaranna.

Mo Salah mætti nefnilega inn í klefa með landa sinn Moamen Zakaria en Zakaria er í hjólastól. Hinn 34 ára gamli Zakaria greindist með taugahrörnunarsjúkdóminn ALS árið 2020.

Salah og Zakaria léku saman með egypska landsliðinu á sínum tíma. Zakaria lék sinn síðasta leik árið 2018 en spilaði yfir tvö hundruð leiki með egypskum liðum á ferlinum.

Í skemmtilegu myndbandi má sjá Zakaria með bikarinn í fanginu og leikmenn Liverpool klappandi og syngjandi í kringum hann. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.

Salah missti af stærsta hluta bikarúrslitaleiksins en hann meiddist á nára eftir hálftíma leik og fór af velli.

Liverpool var þarna að vinna sinn fyrsta bikarmeistaratitil frá 2006 og sinn fyrsta bikarúrslitaleik á Wembley frá árinu 1992.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×