Umfjöllun og viðtöl: FH 2-0 ÍBV | FH-ingar aftur á sigurbraut

Valur Páll Eiríksson skrifar
Steven Lennon og Matthías Vilhjálmsson spiluðu stóran þátt í sigri FH í dag.
Steven Lennon og Matthías Vilhjálmsson spiluðu stóran þátt í sigri FH í dag. Vísir/Hulda Margrét

FH vann 2-0 sigur á nýliðum ÍBV í 6. umferð Bestu deildar karla í Kaplakrika í Hafnarfirði í dag. FH fer upp í sjö stig en Eyjamenn leita enn síns fyrsta sigurs.

Eggert Gunnþór Jónsson kom beint inn í byrjunarlið FH eftir að mál gegn honum og Aroni Einari Gunnarssyni fyrir meint kynferðisofbeldi var látið niður falla á föstudag.

Eggert var hluti af þriggja manna vörn FH-inga í 3-5-2 kerfi en þeir Steven Lennon og Matthías Vilhjálmsson leiddu línuna. Sá síðarnefndi fékk gott færi til að skora eftir aðeins fimm mínútna leik en skot hans hægra megin úr teignum sleikti stöngina fjær er það fór framhjá markinu.

Framan af hálfleiknum gekk báðum liðum illa að skapa sér færi þar sem gæðaleysi í sendingum var helst um að kenna. Eyjamenn virkuðu beittari eftir færið snemma leiks en FH-ingar unnu sig inn í leikinn og fengu færin þegar sendingarnar á síðasta þriðjungi fóru að ganga.

Steven Lennon skaut yfir mark ÍBV úr góðu færi á 27. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar sendi Björn Daníel Sverrisson Matthías Vilhjálmsson í gegn. Matthías gerði betur en í upphafi leiks þar sem hann fór framhjá Guðjóni Orra Sigurjónssyni í marki ÍBV og lagði boltann í autt markið.

Kristinn Freyr Sigurðsson fékk færi til að tvöfalda forystu FH fimm mínútum fyrir lok hálfleiksins, aftur eftir góða sendingu Björns Daníels inn fyrir, en skaut rétt framhjá markinu úr góðri stöðu.

Eyjamenn settu FH undir pressu í upphafi síðari hálfleiks en gekk ekki vel að skapa sér færi. FH-ingar voru þéttir fyrir og gáfu lítið pláss til athafna, en þeim gekk hins vegar bölvanlega að tengja saman sendingar og komust varla yfir miðju fyrsta stundarfjórðunginn.

ÍBV tókst ekki að nýta sér yfirburðastöðuna úti á velli sem þeim refsaðist fyrir skömmu síðar þegar Davíð Snær Jóhannsson tvöfaldaði forystu FH eftir laglegan samleik við Kristin Frey Sigurðsson.

Fátt markvert gerðist eftir síðara mark FH-inga þar sem þeir lögðust aftar, leyfðu ÍBV að vera með boltann og beittu skyndisóknum. Líkt og áður gekk brösuglega fyrir Eyjamenn að skapa færi og urðu lokatölur 2-0 FH í vil.

FH er eftir sigurinn með sjö stig í sjöunda sæti eftir sex leiki en ÍBV leitar enn síns fyrsta sigurs og er með tvö stig í 10. sæti - líkt og Leiknir og Fram sem verma fallsætin þar fyrir neðan.

Hermann kallar eftir gæðum og græðgi

Hermann Hreiðarsson ÍBVVísir/Hulda Margrét

„Þeir voru bara sterkari á síðasta þriðjungnum og komust í betri færi.“ segir Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, hafa skipt sköpum í dag.

„Við komumst í mjög góðar stöður og ágætis færi, en það vantaði aðeins gæðin í restina, síðasti boltinn eða hlaupið. Það vantaði aðeins upp á hjá okkur sem við þurfum að læra af því,“

Eyjamenn mættu áræðnir til leiks í síðari hálfleik og voru með yfirburði úti á velli sem, aftur, nýttust ekki á síðasta þriðjungi líkt og Hermann nefndi. Því var svekkjandi að strax og FH komst í sókn að þeir tvöfölduðu forystuna á 64. mínútu.

„Það var náttúrulega hundfúlt að fá þetta í andlitið eftir sterka byrjun í seinni hálfleiknum. Við vorum ekki alveg nógu oddhvassir, hvort það voru gæðin, eða hlaupin, það vantaði aðeins upp á og líka í föstu leikatriðunum ekki alveg nógu grimmir en það var margt jákvætt, það er engin spurning.“

ÍBV leitar enn síns fyrsta sigurs á mótinu en liðið er með tvö stig eftir sex leiki, jafnmikið og Leiknir og Fram sem sitja í fallsætunum tveimur. En hvað þarf að gera til að ná fyrsta sigrinum?

„Við höfum fengið færi í hverjum einasta leik og verið inni í öllum leikjum. Líka hérna í dag. Það er að vera aðeins gráðugri og fá meiri neista í þetta í restina, gæði og græðgi.“ segir Hermann.

Björn Daníel: Hefur persónulega gengið betur en síðustu tvö ár

Björn Daníel í leik með FH á síðustu leiktíð.vísir/daníel

„Þetta var náttúrulega bara mikilvægur sigur, við höfum ekki fengið þau stig sem að við viljum hafa fengið. Þetta var ekkert frábær fótboltaleikur að okkar hálfu, þeir voru mjög frískir og settu okkur undir mikla pressu í fyrri hálfleik. Samt sem áður gott að skora tvö mörk, halda hreinu og fá þrjú stig.“ sagði Björn Daníel Sverrisson, miðjumaður FH, eftir leik dagsins. Um gang leiks og spilamennsku segir hann:

„Þeir skapa sér í sjálfu sér ekki mikið af færum en, eins og ég segi, þeir voru að koma sér í ágætis stöður og við þurftum að þætta aðeins raðirnar. Mér fannst við betri síðustu tuttugu í fyrri hálfleik þegar við náum að setja þetta mark og við fáum nokkur dauðafæri í þessum leik, við hefðum alveg getað sett fleiri,“

Athygli vakti þegar Björn Daníel byrjaði á varamannabekk FH í fyrsta leik mótsins og fór umræða af stað um það hvort hann yrði bekkjarsetumaður hjá Hafnfirðingum í sumar. Hann hefur hins vegar verið fastamaður í liðinu síðan og átti stórgóðan leik í dag. Hann lagði upp eitt markanna, bjó til 2-3 dauðafæri til viðbótar auk þess sem hann komst nálægt því að skora úr upplögðu færi.

„Það hefði verið gaman [að leggja fleiri upp] og ég hefði sjálfur getað skorað líka. Það er alltaf leiðinlegt að sitja á bekknum og mér finnst eftir að ég kom inn í liðið, að ég hafi spilað nokkuð vel, þótt svo að við höfum ekki fengið mikið af stigum. Þá hefur mér persónulega gengið ágætlega, og betur en hefur verið síðustu tvö ár. Enda er ég búinn að jafna mig af meiðslum sem stríddu mér síðasta eina og hálfa árið.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.