Umfjöllun og Viðtöl: Stjarnan-Valur 0-2 | Valssigur í Garðabænum

Sverrir Mar Smárason skrifar
Valskonur unnu góðan 2-0 útisigur á Stjörnunni í kvöld.
Valskonur unnu góðan 2-0 útisigur á Stjörnunni í kvöld.

Stjarnan og Valur mættust í Bestu deild kvenna á Samsungvellinum í Garðabæ í kvöld. Leiknum lauk með 0-2 sigri gestanna í mjög daufum og lokuðum leik.

Leikurinn fór rólega af stað og virtust bæði lið ætla að reyna að halda sínu marki lokuðu. Stjörnustúlkur gáfu aðeins í eftir um 15 mínútna leik og gerðu atlögu að marki Vals en náðu ekki að skapa ákjósanleg færi eftir að hafa komist í góðar stöður.

Á 25. mínútu brutu Valskonur ísinn. Ásdís Karen Halldórsdóttir tók þá hornspyrnu og sendgi góða sendingu inn í miðjan teiginn. Mist Edvardsdóttir reis hæst í teignum og náði skalla að markinu. Skallinn var ekki fastur en þó alveg út við stöng og endaði í netinu.

Fram að hálfleik var leikurinn opinn úti á miðjum vellinum en svo lokaður þegar nálgaðist teigana. Engin opin marktækifæri heldur aðeins langskot og tilraunir í varnarmenn. Hálfleikstölur 0-1 gestunum í vil.

Síðari hálfleikur fór, líkt og sá fyrri, rólega af stað. Liðin reyndu hvað þau gátu að opna varnir hvors annars án árangurs. Á 57. mínútu bætti Valur forskot sitt. Aftur tók Ásdís Karen hornspyrnu en sendi nú alla leið á fjærstöngina þar sem Arna Sif var sterkust, tók sér stöðu og skallaði boltann í nánast autt markið. Gestirnir frá Hlíðarenda komnar tveimur mörkum yfir.

Það algjörlega slökknaði á liðunum ef þetta seinna mark gestanna en lítið sem ekkert marktækt gerðist síðasta hálftímann í leiknum. Lokatölur 0-2 og Valskonur komnar með 9 stig í Bestu deildinni.

Af hverju vann Valur?

Þær voru þéttar og agaðar varnarlega, gáfu engin færi á sér og Stjörnustúlkum gekk illa að opna þær. Svo er Valsliðið bara svo ofboðslega sterkt í föstum leikatriðum sóknarlega. Ásdís Karen með góðar spyrnur inn í teiginn og fáir leikmenn í deildinni sem geta varist Mist og Örnu þegar þær ætla sér að skalla boltann.

Hverjar voru bestar?

Arna Sif og Mist Edvardsdóttir voru bestar í kvöld. Skoruðu sitthvort markið og héldu hreinu í þokkabót. Þær í raun bara unnu þennan leik.

Hinum megin var hafsentaparið einnig gott. Anna María og Málfríður Erna, sem var að spila leik númer 400 í meistaraflokki á Íslandi.

Hvað gerist næst?

Stjarnan mætir nýliðunum í Aftureldingu í Mosfellsbæ miðvikudaginn 18. maí kl. 19:15. Valur hins vegar fær hina nýliðana, KR, í heimsókn á Origo völlinn fimmtudaginn 19. maí kl. 19:15.Kristján Guðmundsson: Það er ekki færi í þessum leik

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.VÍSIR/DANÍEL

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var sáttur við frammistöðu liðsins en svekktur að hafa fengið mörkin á sig eftir hornspyrnur.

„Það sem ég er mest pirraður yfir er að við skildum gefa þeim horn sem við þurftum ekki að gefa þeim í fyrri hálfleik því það var það eina sem Valur spilaði uppá í þessum leik. Síðan fá þær frítt horn í öðru markinu sem átti ekki að vera horn. Að öðru leyti þá er leikurinn hægur. Það er ekki færi í þessum leik. Leikurinn er ágætur af okkar hálfu og við erum stóra liðið í þessum leik í dag. Það er það sem ég tek út úr leiknum,“ sagði Kristján.

Leikurinn var sem fyrr segir opinn við miðju en lokaður þegar nær dró að mörkum liðanna. Kristján hefði viljað sjá margt gert betur.

„Hefði viljað sjá aðeins hraðara spil og svona nær því sem við vorum að æfa í gær. Ég hefði viljað sjá betri útgáfu af því og að spila betur í gegnum miðjuna hjá þeim og færa boltann svo út á kantana. Það gekk of hægt. Skerptum á því í hálfleik og við sáum einhvern afrakstur en liðin komust eiginlega ekkert inn í teiginn hjá hvort öðru. Liðin spiluðu bæði mjög góða vörn,“ sagði Kristján.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.