Íslenski boltinn

Jón Þór: Fórum að gera hlutina hver í sínu horni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Þór Hauksson gefur skipanir.
Jón Þór Hauksson gefur skipanir. vísir/hulda margrét

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, sagði að þótt það hafi verið svekkjandi að lenda undir blálok fyrri hálfleik hafi annað mark Vals sett hans menn út af laginu. ÍA tapaði 4-0 fyrir Val á Hlíðarenda í kvöld.

„Mér fannst annað markið gera það. En það sem við tökum út úr þessum leik er virkilega öflug frammistaða í fyrri hálfleik. Við hefðum getað verið komnir yfir áður en þeir skoruðu,“ sagði Jón Þór í samtali við Vísi eftir leik.

„Auðvitað er þungt og erfitt að fara inn í hálfleikinn með mark í andlitinu. Við annað markið riðlaðist svo allur okkar leikur og við fórum að gera hlutina hver í sínu horni og við það splundraðist liðið. Gott lið eins og Valur nýtir sér það og þeir gerðu það virkilega vel.“

En hvað hefði Jón Þór viljað sjá sitt lið gera betur í seinni hálfleik?

„Ég held við hefðum getað brugðist betur við. Auðvitað var áfall að fá á sig mark í lok fyrri hálfleiks. Í hálfleik eru menn svo að járna sig upp og eru virkilega staðráðnir í að koma til baka en fá svo annað markið á sig í staðinn. Ég hefði viljað sjá okkur gera betur í þeirri stöðu, þétta liðið í staðinn fyrir að gera hlutina í sitt hvoru lagi út um allan völl,“ svaraði Jón Þór.

Þrátt fyrir að ÍA hafi tapað tveimur leikjum í röð með fjögurra marka mun er engan bilbug á Jóni Þór að finna.

„Blikar voru frábærir í leiknum á laugardaginn og stundum þarftu bara að bera virðingu fyrir því. Við erum að spila við tvö frábær lið og Valsmenn nýttu sér það frábærlega þegar leikur okkar riðlaðist. Við látum þetta ekki slá okkur út af laginu,“ sagði Jón Þór að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.