Íslenski boltinn

Alexandra lánuð til Breiðabliks til að komast í leikform fyrir EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexandra lék með Breiðabliki á árunum 2018-20 og varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari með liðinu.
Alexandra lék með Breiðabliki á árunum 2018-20 og varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari með liðinu. vísir/bára

Alexandra Jóhannsdóttir, landsliðskona í fótbolta, hefur verið lánuð frá Frankfurt til Breiðabliks.

Lánssamningurinn gildir til 30. júní. Í frétt á heimasíðu Frankfurt kemur fram að Alexandra hafi óskað eftir því að vera lánuð til að komast í betra leikform fyrir Evrópumótið í Englandi í júlí.

Alexandra hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Frankfurt á þessu tímabili. Liðið mætir Werder Bremen í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn. Frankfurt er í 4. sæti og og þarf að ná betri úrslitum en Potsdam í lokaumferðinni til að ná 3. sætinu og þar með sæti í Meistaradeild Evópu á næsta tímabili.

„Þegar Alex kom að máli við okkur eftir leikinn í Potsdam samþykktum við beiðni hennar að fara á lán til Breiðabliks fyrir EM. Og í ljósi þess að við erum með alla okkar miðjumenn var þetta hægt,“ sagði Niko Arnautis, þjálfari Frankfurt.

Alexandra hefur komið við sögu í átján leikjum með Frankfurt á tímabilinu, sautján í deild og einum í bikar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×