Enski boltinn

Gamli Púlarinn segir mögulega fernu Liverpool ekki betri en þrennu United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Manchester United fagna með alla þrjá bikarana vorið 1999.
Leikmenn Manchester United fagna með alla þrjá bikarana vorið 1999. Getty/Morris & Stenning

Fyrrum framherji Liverpool á tíunda áratugnum er á þeirri skoðun að þrenna Manchester United frá 1999 sé meira afrek en að vinna fernuna í dag eins og Liverpool á enn möguleika á.

Liverpool er búið að vinna enska deildabikarinn, er einu stigi á eftir Manchester City í ensku úrvalsdeildinni og er komið í bæði úrslitaleik ensku bikarkeppninnar og úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Stan Collymore, sem skoraði 26 mörk í 61 deildarleik fyrir Liverpool frá 1995 til 1997, vill ekki gera of mikið úr mögulegri fernu Liverpool liðsins.

Hann segir að hún sé ekki betri en þrenna Manchester United frá 1998/99 en heldur ekki merkilegri en tvenna Tottenham frá 1960/61 og Arsenal 1970/71. Að hans mati yrði þrenna Manchester United síðan merkilegust af þeim öllum.

Ástæðan að mati Collymore er hvernig fótboltinn hafi breyst í gegnum tíðina og allir peningarnir sem eru komnir inn í boltann. Vellirnir séu nú betri og líkamleg átök séu minni í leikjunum. Hann viðurkennir þó að enska úrvalsdeildin hafi aldrei séð eins mikil gæði hjá liðum eins og hjá Liverpool og Manchester City þessi misserin.

Manchester United varð fyrsta enska liðið til að vinna þrennuna vorið 1999 en liðið tryggði sér þá alla titlana þrjá á ótrúlegum tíu dögum.

United tryggði sér sigur í deildinni 16. maí eftir mikið einvígi við Arsenal, vann Newcastle United í úrslitaleik bikarkeppninnar 22. maí og vann síðan Meistaradeildina eftir endurkomusigur á Bayern München í úrslitaleik í Barcelona 26. maí.

„Ég veit að einhver ykkar, þá sérstaklega unga fólkið, muni segja að fótboltinn sé miklu betri í dag en hann var á árum áður. Sem dæmi um það getum við bara skoðað stigin sem Liverpool og City hafi náð í hús á síðustu tveimur til þremur árum og hið mikla bil sem er á milli þessara tveggja liða og restarinnar af deildinni, skrifaði Stan Collymore í pistil sinn í Mirror.

„Ég samþykki það sjónarmið en segi líka það að það getur ekki verið tilviljun, þegar að leikurinn reynir ekki eins líkamlega á menn lengur, með minni samkeppni frá öðrum liðum og færri samstuðum í leikjunum, að öll met um alla Evrópu hafi fallið. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að lið fyrri tíma spiluðu á skelfilegum völlum og það voru ekki þessir peningar í boltanum eins og nú, skrifaði Collymore.

„Sjáið bara hvernig Liverpool tók Virgil van Dijk og Sadio Mane frá Southampton. Þegar ég spilaði þá eyddi Matt Le Tissier öllum ferli sínum með Saints þrátt fyrir að öll stóru liðin hefðu viljað taka hann eftir tvö eða þrjú ár, hvort sem það var að láta hann spila eða sitja á bekknum, skrifaði Collymore.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.