Íslenski boltinn

Davíð Snær genginn til liðs við FH | Samningur til 2025

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Davíð Snær og Ísak Snær Þorvaldsson í baráttunni á síðustu leiktíð. Davíð Snær mun nú leika með FH en Ísak Snær samdi við Breiðablik.
Davíð Snær og Ísak Snær Þorvaldsson í baráttunni á síðustu leiktíð. Davíð Snær mun nú leika með FH en Ísak Snær samdi við Breiðablik. Vísir/Hulda Margrét

FH hefur staðfest að miðjumaðurinn Davíð Snær Jóhannsson sé genginn til liðs við félagið frá Lecce á Ítalíu. Hann skrifar undir samning til ársins 2025. Frá þessu var greint á samfélagsmiðlum FH.

Á miðvikudag greindi Vísir frá því að hinn 19 ára gamli Davíð Snær væri við það að ganga til lisð við FH í Bestu deild karla í fótbolta eftir stutt stopp hjá Lecce á Ítalíu. 

Hinn 19 ára gamli Davíð Snær stóð sig með prýði er Keflavík hélt sæti sínu í efstu deild hér á landi síðasta haust. Í kjölfarið var hann orðaður við FH en fór á endanum til Ítalíu. Hann hefur nú samið við FH og ljóst er að Hafnfirðingar eru að kaupa hann frá ítalska félaginu.

Faðir Davíðs, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaðurinn Jóhann Birnir Guðmundsson, þjálfar í dag hjá FH eftir að hafa starfað hjá Keflavík síðan skórnir fóru á hilluna. Hann er afreksþjálfari félagsins ásamt því að vera hluti af þjálfarateymi 4. flokks karla.

Davíð Snær hefur þrátt fyrir ungan aldur safnað ágætri reynslu hér á landi en alls á hann að baki 76 deildar- og bikarleiki. Þá hefur hann alls spilað 40 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

FH er í 8. sæti Bestu deildar karla með 3 stig eftir þrjár umferðir.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×