Erlent

Átta létust eftir landa­drykkju

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Andlátum vegna metanóleitrunar hefur fjölgað gífurlega í Íran frá upphafi kórónuveirufaraldursins.
Andlátum vegna metanóleitrunar hefur fjölgað gífurlega í Íran frá upphafi kórónuveirufaraldursins. Getty/Scott Olson

Átta létust í írönsku borginni Bandar Abbas eftir að hafa drukkið heimabruggað áfengi. Minnst 51 til viðbótar gekkst undir læknishendur vegna áfengiseitrunar og sautján þeirra liggja á gjörgæslu. 

Lögreglan í borginni segist hafa handtekið átta sem grunaðir eru um að hafa bruggað vínið og selt það. Framleiðsla, sala og neysla áfengis er kolólögleg í Íran og undantekning aðeins gerð fyrir einstaka minnihlutahópa, sem neyta áfengis í trúarlegum tilgangi. Refsingin fyrir múslima sem neyta áfengis eru áttatíu svipuhögg. 

Yfirvöldum í Bandar Abbas tókst ekki að greina hvaða efni það var í áfenginu sem olli dauða fólksins og veikindum en á undanförnum árum hefur fjöldi Írana látið lífið eftir að hafa neytt drykkja með banvænu magni af metanóli. 

Metanól er notað til þess að framleiða frostlög, uppleysiefni og eldsneyti en stundum bætt í heimabruggað áfengi til þess að auka vínandann. Metanól getur, í minnstu skömmtum, valdið blindu og jafnvel dauða. 

Andlátum vegna metanóleitrunar fjölgaði gríðarlega í Íran við upphaf kórónuveirufaraldursins eftir að sú gróusaga fór á flug að inntaka áfengis gæti komið í veg fyrir Covid-19. Heilbrigðisráðuneyti Írans tilkynnti í apríl 2020 að meira en 500 hefðu látist og 5.000 veikst vegna metanóleitrunar á mánuðunum þremur sem á undan gengu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×