Íslenski boltinn

Á­fall fyrir Þrótt: Linda Líf ekkert með og Ólöf Sig­ríður frá meiri­hluta tíma­bils

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ólöf Sigríður í leik með Þrótti Reykjavík.
Ólöf Sigríður í leik með Þrótti Reykjavík. Vísir/Hulda Margrét

Þróttur Reykjavík verður án tveggja sterkra leikmanna framan af sumri í Bestu deildinni í fótbolta. Linda Líf Boama verður ekkert með liðinu og þá er Ólöf Sigríður Kristinsdóttir frá næstu þrjá mánuðina eða svo.

Þetta staðfesti Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, í samtali við Fótbolta.net. Þar segir hann að Linda Líf geti ekki spilað vegna höfuðáverka sem hún varð fyrir í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Þar spilar hún með Boston College.

Ólöf Sigríður og Linda Líf (til hægri) í leik með Þrótti á síðustu leiktíð.Vísir/Hulda Margrét

Eftir að raða inn mörkum fyrir Þrótt í næstefstu deild sumarið 2019 þá hefur Linda Líf ekki náð neinu flugi með Þrótti í efstu deild. Hún náði alls að spila níu af 18 deildarleikjum liðsins á síðustu leiktíð. Skoraði hún í þeim þrjú mörk.

Ólöf Sigríður var gríðarlega mikilvæg liði Þróttar í fyrra en hún skoraði átta mörk í 15 deildarleikjum. Hún meiddist í U-19 ára landsleik fyrr í þessum mánuði og er ljóst að hún mun ekki spila með Þrótti fyrr en eftir að Evrópumótinu í Englandi lýkur þann 31. júlí næstkomandi.

Þrótti Reykjavík er spáð 5. sæti í spá Vísis og Stöðvar 2 fyrir tímabilið. Sem stendur er alls óvíst hvaðan mörkin eiga að koma í Laugardalnum. Liðið byrjar á eins erfiðum leik og mögulegt er, gegn Íslandsmeisturum Vals á Hlíðarenda.

Besta deild kvenna hefst annað kvöld, þriðjudaginn 26. apríl. Leikur Vals og Þróttar R. verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×