Erlent

Rússi og Úkraínu­maður brjóta saman páska­egg

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar

Fjöldi úkraínskra flótta­manna kom saman í Nes­kirkju í dag til að fagna páskunum sem eru haldnir há­tíð­legir í Rétt­trúnaðar­kirkjunni í dag. Óttar fékk að fylgjast með og læra inn á al­vöru úkraínskar páska­hefðir.

Í rétt­trúnaðar­kirkjunni er páska­dagur í dag og var honum fagnað víða um Úkraínu.

Páskarnir í ár falla þó í skuggann á skelfi­legu stríði við Rússa en í dag eru ein­mitt sléttir tveir mánuðir frá því að inn­rás Rússa í landið hófst.

Víða um landið mátti því heyra sprengju­gnýinn við páska­messuna.

Á meðan héldu úkraínskir flótta­menn á Ís­landi páskana há­tíð­lega í Nes­kirkju.

Mikil­vægasta há­tíð Úkraínu

Anastasi­ia Kras­noselska kom til landsins í byrjun mánaðarins en hún flúði frá heimili sínu í Kænu­garði.

„Þetta er mikil­væg há­tíð, líka fyrir þá­ sem sækja ekki kirkju reglu­laga. Þetta er fjöl­skyldu­hefð. Til að halda í hefðina fara margir til kirkju og borða hefð­bundinn mat. Al­vöru­egg, ekki súkku­laði­egg eins og á Ís­landi, máluð í mis­munandi litum. Svo þetta er mikil­væg há­tíð í Úkraínu,“ segir Anastasi­ia.

Anastasiia flúði heimili sitt í Kænugarði og kom til Íslands í byrjun apríl.vísir/ívar

Biskup Ís­lands hélt ræðu fyrir hópinn áður en hann safnaðist saman í safnaðar­húsinu til að gæða sér á ýmsum páska­réttum eftir langa föstu.

„Aðal­hefðirnar eru egg og brauð sem kallast „ pa­ska“. Fólk bakar það alltaf og þeir sem geta það ekki kaupa það. Og eggin eru yfir­leitt skreytt. Við dóttir mín búum á hóteli hérna á Ís­landi og í gær tókst okkur að skreyta eggin með því litla sem við höfum hérna á Ís­landi, til dæmis með blaða­úr­klippum. Svo okkur tókst að gera smá­hluta af Úkraínu hérna á Ís­landi,“ segir Anastasi­ia.

Eggja­stríð sem Úkraína vann

Sergej Kjartan Arta­monov, sem kemur frá Úkraínu, og Anastasía Dodonova, sem er frá Rúss­landi, hafa búið á Ís­landi í nokkur ár og eru ein þeirra sem skipu­lögðu daginn í dag.

Þau sýna okkur eina helstu páska­hefð sína í mynd­bandinu hér að ofan þar sem þau brjóta saman páska­egg.

„Þetta er bara hefð sem við gerum á páskunum,“ segir Sergej.

Anastasía og Sergej brjóta páskaeggin að úkraínskum sið.

„Þetta er svona eggstríð og sá sem er búinn að vinna þetta stríð hann þarf að fara til annarrar mann­eskju og gera aftur,“ segir Anastasía.

„Og úkraínska hliðin hefur sigrað!“ segir Sergej og hlær.

Já, úkraínska hliðin vann þennan bar­daga og nú verður Anastasía, sem tapaði að borða sitt egg á meðan Sergej fer um salinn og finnur sér nýjan mót­herja.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.