Enski boltinn

Rangnick: Þeir eru sex árum á undan okkur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ralf Rangnick var niðurlútur eftir 4-0 tap Manchester United gegn Liverpool í kvöld.
Ralf Rangnick var niðurlútur eftir 4-0 tap Manchester United gegn Liverpool í kvöld. AP Photo/Jon Super

Ralf Rangnick, bráðabirgðarstjóri Manchester United, var niðurlútur eftir 4-0 tap sinna manna gegn Liverpool í stórleik ensku urvalsdeildarinnar í kvöld. Hann segir að sínir menn hafi einfaldelga ekki verið nógu góðir.

„Ég er ekki viss um að einhver önnur uppstilling í upphafi leiks hefði breytt nokkru,“ sagði Þjóðverjinn í leikslok.

„Fyrsta markið sem við fáum á okkur, það var ekki hluti af planinu að vera svona hátt uppi á vellinum og fá á okkur mark úr skyndisókn eftir fimm mínútur. Það breytti leiknum. Í fyrri hálfleik vorum við bara ekki nógu góðir.“

„Við unnum aldrei fyrsta eða annan boltann og við vorum næstbestir í öllum þáttum leiksins sem skipta máli. Við breyttum taktíkinni aðeins í síðari hálfleik og vorum betri fyrstu 25 mínúturnar. Við náðum að pressa vel og áttum tvö eða þrjú góð augnablik, en þriðja markið drap leikinn.“

Þriðja mark Liverpool skoraði Sadio Mané úr sókn sem hófst á því að Andy Robertson komst inn í sendingu frá Victor Lindelöf.

„Þriðja markið kemur eftir sendingu sem við eigum ekki að vera að taka. Við erum að bjóða upp á pressuna. Tólf metra sending á Anthony Elanga sem er leikmaður sem vill fá boltann á bakvið vörnina. Við bjóðum þeim upp á þetta og sex sekúndum seinna er boltinn í netinu.“

Rangnick viðurkenndi svo að lokum að Liverpool-liðið væri langt á undan United.

„Þetta er vandræðalegt, svekkjandi og jafnvel niðurlægjandi. Við verðum að sætta okkur við það að þeir eru sex árum á undan okkur núna. Þegar Jürgen Klopp tók við þá breyttist klúbburinn og hann lyfti ekki bara liðinu, heldur félaginu og borginni, upp á hærra plan. Það er það sem þarf að gerast hjá okkur í næstu félagsskiptagluggum,“ sagði Rangnick að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×