Erlent

Dómari nam grímuskyldu úr gildi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna vildi framlengja grímuskyldu til 3. maí.
Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna vildi framlengja grímuskyldu til 3. maí. AP Photo/Ted S. Warren

Alríkisdómari í Bandaríkjunum hefur afnumið grímuskyldu í flugi og almenningssamgönum þar í landi. Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna mælir áfram með grímunotkun í flugi og almenningssamgöngum.

Grímuskylda hefur verið í gildi í flug- og almenningssamgöngum í Bandaríkjunum. Upprunalega átti grímuskyldan að renna út í gær en sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna hafði óskað eftir því að hún yrði framlengd til 3. maí á meðan stofnunin kannaði áhrif BA.2 afbrigðis ómíkronafbrigðsins.

Málið kom til kasta alríkisdómstóls í Flórída sem kvað upp úrskurð sinn í gær.

Í ákvörðun dómarans Kathryn Kimball Mizell, sem skipuð var í embætti í forsetatíð Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta, segir að Sóttvarnarstofnuninni hafi ekki tekist að sýna fram á réttmæti grímuskyldunnar.

Niðurstaða dómarans þýðir að flugfélögum, flugvöllum og öðrum samgöngufyrirtækjum er í sjálfsvald sett að taka ákvörðun um hvort grímuskylda sé í gildi hjá viðkomandi fyrirtækjum.

Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna mælir áfram með grímunotkun í almenningssamgöngum.AP Photo/Nam Y. Huh.

Stærstu flugfélög Bandaríkjanna brugðust við úrskurði dómarans með að tilkynna að notkun gríma hjá flugfélögunum væri valkvæð.

Samgönguyfirvöld í New York borg hafa hins vegar ákveðið að viðhalda grímuskyldu í almenningssamgöngukerfi borgarinnar.

Talsmaður Hvíta hússins segir ákvörðunina vonbrigði og benti á að Sóttvarnarstofnunin mæli enn með grímunotkun í almenningssamgöngum. 

Síðustu sjö daga hafa um fjörutíu þúsund manns greinst með Covid-19 á hverjum degi að meðaltali í Bandaríkjunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×