Íslenski boltinn

Draumaliðsdeildin í Bestu ekki tilbúin fyrir opnunarleikinn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Besta deildin byrjar á morgun
Besta deildin byrjar á morgun vísir/skjáskot

Íslenska fótboltasumarið hefst á morgun þegar flautað verður til leiks Víkings og FH í Bestu deild karla.

Íslenskt knattspyrnuáhugafólk bíður í startholunum eftir að fjörið fari af stað enda er undirbúningstímabilið á Íslandi það lengsta í heimi.

Einn liður í umgjörðinni um deildina undanfarin ár hefur verið sérstök draumaliðsdeild (e. Fantasy League) þar sem þátttakendum gefst kostur á að setja saman lið með leikmönnum deildarinnar og safna stigum fyrir mörk og stoðsendingar leikmanna.

Í ár eru það hagsmunasamtökin Íslenskur toppfótbolti sem hyggjast halda utan um þennan ómissandi hluta umgjarðarinnar í kringum deildina en nú er ljóst að draumaliðsdeildin verður ekki klár áður en Besta deildin hefst á morgun.

Þetta kom fram í tilkynningu frá samtökunum í dag þar sem segir að leikurinn sé í raun tilbúinn en verið sé að gera síðustu lagfæringar og því verði opnað fyrir þátttakendur á næstu dögum.

Í tilkynningu ÍTF segir jafnframt að draumaliðsleikur fyrir Bestu deild kvenna sé enn styttra á veg kominn og verði ekki tilbúinn í fyrstu umferðum deildarinnar en mótið hjá konunum hefst þann 26.apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×