Erlent

Biden og Xi ræðast við í dag: Hvað gera Kínverjar?

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Innsetningin „Skák og mát gegn heiminum“ á Fallas-hátíðinni í Valencia á Spáni.
Innsetningin „Skák og mát gegn heiminum“ á Fallas-hátíðinni í Valencia á Spáni. epa/Juan Carlos Cardenas

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Xi Jingping, forseti Kína, munu ræðast við í síma í dag klukkan 13 að íslenskum tíma. Um er að ræða fyrsta samtal leiðtoganna frá því í nóvember í fyrra og frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Biden er sagður munu ítreka það við kollega sinn sem bandarískir embættismenn hafa tjáð sig um við fjölmiðla á síðustu vikum; að Kínverjar muni gjalda fyrir það ef þeir aðstoða Rússa efnahags- og fjárhagslega og draga þannig úr áhrifum refsiaðgerða vesturveldanna.

Stjórnvöld vestanhafs hafa jafnframt varað Kínverja við að koma Rússum til aðstoðar með hernaðargögnum en stjórnvöld í Kína hafa hingað til dansað á þeirri línu sem Moskva hefur dregið og neitað að kalla innrásina „innrás“ og kennt Atlantshafsbandalaginu um það hvernig er komið, með því að koma ekki til móts við öryggissjónarmið Rússa.

Stjórnvöld í Pekíng hafa neitað því að Rússar hafi leitað til þeirra um aðstoð og sagt um áróður að ræða af hálfu Bandaríkjanna en Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Biden, sagði símtalið vera tækifæri fyrir forsetann að kanna og meta hvar Xi raunverulega stendur.

Stóra spurningin

Það er sú spurning sem flestir spyrja sig nú; hvað hyggjast Kínverjar gera?

Xi hefur lagt mikið upp úr því að rækta góð samskipti við Rússland og gekk svo langt að lýsa yfir „takmarkalausri“ vináttu ríkjanna þegar hann fékk Vladimir Pútín Rússlandsforseta í heimsókn fyrir Ólympíuleikana í Pekíng.

Kínverjar hafa löngum ítrekað mikilvægi þess að virða fullveldi annarra ríkja en hafa, líkt og fram hefur komið, einnig sagt mikilvægt að virða öryggissjónarmið. Ýmsir fulltrúar Kína hafa á síðustu vikum viðurkennt að Úkraína sé sannarlega fullvalda ríki og á sama tíma lagt áherslu á að Taívan sé það ekki; það sé óaðskiljanlegur hluti Kína.

Margir sérfræðingar hafa sagt ólíklegt að Kínverjar muni grípa inn í átökin í Úkraínu með afgerandi hætti, til að mynda með því að sjá Rússum fyrir vopnum, enda sé ófriðurinn ekki þeim til hagsbóta. Kína hafi sýnt því áhuga að taka virkan þátt í alþjóðasamstarfi, ólíkt Rússum, sem hafi einblínt meira á að setja hið vestræna kerfi í uppnám.

Aðrir segja komið að ögurstundu fyrir Kína og að ákvarðanir þeirra og gjörðir næstu daga muni annað hvort styrkja stöðu þeirra sem ábyrgs ofurveldis eða skipa þeim í flokk með spilltum einræðisríkjum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×