Enski boltinn

Banka­reikningum Chelsea lokað tíma­bundið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Thomas Tuchel er þjálfari Chelsea. Hann hefur þurft að svara ýmsum spurningum fjölmiðla er varða eigendur félagsins.
Thomas Tuchel er þjálfari Chelsea. Hann hefur þurft að svara ýmsum spurningum fjölmiðla er varða eigendur félagsins. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Bankareikningum enska knattspyrnufélagsins Chelsea hjá Barclays-bankanum hefur verið lokað tímabundið. Er þetta enn eitt höggið sem félagið verður fyrir eftir að breska ríkisstjórnin ákvað að banna Roman Abramovich, rússneskum eiganda félagsins, að eiga í viðskiptum innan Bretlands.

Breska ríkisstjórnin telur tengsl Abramovich við Kremlin og þar með við Vladimir Pútín forseta Rússlands nægilega mikil til þess að banna honum að eiga í viðskiptum innan Bretlands eða við fyrirtæki landsins.

Þá fær hann ekki að selja Chelsea, félagið fær ekki að selja miða á leiki sína né varning og þá má það ekki semja við leikmenn sem eru að renna út á samning. Þó félagið hafi fengið sérstakt leyfi til að halda starfsemi sinni áfram voru ýmis viðurlög sett. Til að mynda hversu mikið félagið mætti eyða í ferðalög.

Nú hafa bankareikningar félagsins verið frystir tímabundið. Ástæðan er samkvæmt Sky Sports sú að Barclays þarf tíma til að skoða reikninga Chelsea vegna leyfisins sem félagið fékk til að halda áfram starfsemi sinni.

Chelsea vonast til að bankareikningarnir verði opnaðir sem fyrst en það er ljóst að þetta mun hafa gríðarleg áhrif á félagið. Þá hafa kreditkort félagsins einnig verði fryst tímabundið.

Samkvæmt Kaveh Solhekol, blaðamanni Sky, þá er Barclays að skoða hvort bankinn geti átt í viðskiptum við Chelsea þar sem Abramovich er enn eigandi félagsins þó svo að bankareikningurinn sé í nafni Chelsea.

„Bankinn vill vera viss um að Chelsea sé aðeins að eyða peningum í það sem ríkisstjórnin hefur gefið þeim leyfi fyrir,“ segir Solhekol í frétt Sky um málið.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.