Innlent

Segir lýð­heilsu­mál að banna á­vaxta­bagg en net­verjar eru æfir

Árni Sæberg skrifar
Það verður bannað að selja bagg með ávaxta- og nammibragði ef Willum Þór fær vilja sínum framgengt.
Það verður bannað að selja bagg með ávaxta- og nammibragði ef Willum Þór fær vilja sínum framgengt. Vísir

Heilbrigðisráðherra segir lýðheilsumál að banna nikótínpúða með nammi- og ávaxtabragði. „Við erum að hugsa um börn og unglinga,“ segir hann.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur lagt til að sömu lög gildi um nikótínvörur, svo sem nikótínpúðar og rafrettur, og gilda um tóbaksvörur. Þá verði sala á nikótínvörum með nammi- og ávaxtabragði bönnuð.

Netverjar æfir

Tillaga Willums hefur vakið gríðarlega viðbrögð á netinu í dag og tala sumir jafnvel um aðför að ungu fólki. 

Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, furðar sig á ríkisstjórninni sem hún segir tala fyrir frelsi en vilja þó auka eftirlitsheimildir og banna ávaxtalyft. Lyft er ein vinsælasta tegund nikótínpúða hér á landi.

Einn netverji hefur biðlað til þingmannsins Gísla Rafns Ólafssonar að koma í veg fyrir að heilbrigðisráðherra taki af honum nikótínvökvar með „monster bragði“. Líkt og frægt er orðið er Gísli Rafn mikill unnandi orkudrykksins Monster.

Þá segir einn tilburði Willums minna á átakið Bagg er bögg sem var á vegum KSÍ en Willum hefur mikil tengsl við knattspyrnuhreyfinguna hér á landi.

Plötusnúðnum Atla Viðari finnst áhugavert að Willum einbeiti sér að því banna bagg í stað þess að einblína á faraldur kórónuveiru.

Svar við kalli eftir skýrum reglum

Willum ræddi málið í Reykjavík síðdegis í dag. Hann segir tillögunni ætlað að setja skýrar reglur um heimildir til sölu og markaðssetningu á nikótínvörum. „Það hefur verið kallað eftir þessu. Bæði af þeim sem eru að nota þessar vörur og ekki síst þeim sem eru að höndla með þær, hér er bara verið að bregðast við því. Þetta er mjög sambærilegt því sem gildir í Noregi og nágrannaþjóðum okkar,“ segir Willum.

Hann segir meginefni þeirra laga sem hann leggur til vera að banna sölu níkótínvara með nammi- og ávaxtabragði. „Þetta er lýðheilsumál, við erum að hugsa um börn og unglinga,“ segir hann.

Hann telur að miklar umræður verði í þinginu um málið og að því verði velt upp hvort fullorðnu fólki eigi ekki að vera frjálst að neyta nikótíns með hvaða bragði sem það kýs. Hann segir bannið þó nauðsynlegt enda sé nammi- og ávaxtabragð það sem börn sækja helst í.

Heyra má viðtal við Willum Þór í Reykjavík síðdegis í spilaranum hér að neðan. Umræða um nikótínvörur hefst að lokinni umræðu um Covid-19.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.