Erlent

Leita leiða til að sjá Úkraínumönnum fyrir MiG-herþotum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bandaríkjamenn leita nú leiða til að sjá Úkraínumönnum fyrir sovéskum MiG-herþotum.
Bandaríkjamenn leita nú leiða til að sjá Úkraínumönnum fyrir sovéskum MiG-herþotum.

Bandaríkjamenn skoða nú leiðir til að sjá Úkraínumönnum fyrir herþotum frá Póllandi en ein leiðin væri að Pólverjar sendu nágrannaþjóð sinni þotur gegn því að fá nýjar herþotur frá Bandaríkjunum.

Herþotur Póllands eru frá tímum Sovétríkjanna og eru þær þotur sem úkraínskir flugmenn kunna að fljúga.

Pólverjar eru hins vegar sagðir hafa sýnt tillögunum lítinn áhuga en forsetinn Andrzej Duda sagði í síðustu viku að Pólland hygðist hvorki sjá Úkraínumönnum fyrir þotum né heimila notkun flugvalla landsins.

Atlanshafsbandalagið mun ekki senda þotur til Úkraínu, til að forðast ásakanir um beina þátttöku í átökunum þar í landi, en sá möguleiki hefur ekki verið útilokaður að einstaka ríki geri það upp á eigin spýtur.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að verið væri að skoða að fara „pólsku leiðina“. Hins vegar er mörgum spurningum ósvarað, fyrir utan takmarkaðan vilja Pólverja; til að mynda hvernig á að koma þotunum frá Póllandi til Úkraínu og hvernig Bandaríkin hyggjast sjá Pólverjum fyrir vélum í staðinn.

Næsti „skammtur“ af F-19 þotum Bandaríkjahers hefur verið lofaður Taívan og það ku vera lítil stemning fyrir því að falla frá þeim áætlunum.

Slóvakía og Búlgaría eru einu ríkin utan Póllands sem enn notast við herþotur frá tímum Sovétríkjanna en hvorugt ríki segir standa til að senda þotur til Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×