Erlent

Eldur kviknaði í stærsta kjarnorkuveri Evrópu í kjölfar árása Rússa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stillur úr myndbandsupptökum sýna bjarma lýsa upp himininn er eitthvað, mögulega einhvers konar eldflaug, lenti á lóð kjarnorkuversins. Eldurinn logaði í fjóra tíma.
Stillur úr myndbandsupptökum sýna bjarma lýsa upp himininn er eitthvað, mögulega einhvers konar eldflaug, lenti á lóð kjarnorkuversins. Eldurinn logaði í fjóra tíma. AP

Búið er að slökkva eld sem kviknaði í Zaporizhzhia-kjarnorkuverinu í Úkraínu í nótt. Eldurinn er sagður hafa brotist út í kjölfar skotárása Rússa og náð til þriðju, fjórðu og fimmtu hæðar æfingabyggingar.

Zaporizhzhia-kjarnorkuverið er það stærsta í Evrópu og fréttir af árásunum og eldinum vöktu mikil og hörð viðbrögð víða. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) sagðist meðal annars hafa virkjað viðbragðsáætlun en framkvæmdastjóri stofnunarinnar sagðist hafa verulegar áhyggjur af ástandinu.

Ef marka má fyrstu fréttir var aldrei alvarleg hætta á ferðum vegna eldsins, enda sex kjarnakljúfar versins vel varðir. Hins vegar kölluðu ráðamenn víðsvegar um heim eftir því að bardögum yrði hætt í kringum kjarorkuverið.

Sérfræðingar hafa varað við því að árásir séu ólíklegar til að valda skaða á kjarnakljúfunum sjálfum en mikil og veruleg hætta gæti skapast ef eitthvað henti þann búnað sem sér kælikerfum kjarnorkuversins fyrir orku.

Zaporizhzhia-verið og nágrannabærinn Energodar hafa verið umkringd af rússneskum hersveitum frá því í byrjun vikunnar. Þegar eldurinn braust út bárust fréttir af því að sveitirnar hefðu reynt að hamla slökkvistarfinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×