Erlent

Einka­þjálfari inn­byrti í­gildi tvö hundruð kaffi­bolla og lést

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Framleiðandi duftsins segir að mæliskeiðar fylgi koffínduftinu ekki. Eftir slysið hafi því hins vegar verið breytt.
Framleiðandi duftsins segir að mæliskeiðar fylgi koffínduftinu ekki. Eftir slysið hafi því hins vegar verið breytt. Getty Images

Velskur einkaþjálfari, sem hugðist blanda sér drykk með koffíndufti, ruglaðist á mælieiningum og innbyrti skammt sem jafngildir koffínmagni í tvö hundruð kaffibollum. Maðurinn lést úr koffíneitrun rúmum hálftíma síðar.

Koffínduft er vinsælt í heimi líkamsræktarfrömuða en sérfræðingar hafa mælt gegn notkun duftsins, enda er talin töluverð hætta á því að menn innbyrði of mikið magn í einu. Þetta kemur fram hjá Breska ríkisútvarpinu.

Maðurinn, Tom Mansfield, nýtti hefðbundna eldhúsvog til að vigta koffínduftið. Vigtin sem hann notaði sýndi þunga á bilinu tvö til fimm þúsund grömm. Ráðlagður skammtur af koffínduftinu voru hins vegar 60 til 300 milligrömm. Mansfield virðist hafa ruglast við útreikninginn með þeim afleiðingum að hann innbyrti gríðarlegt magn af koffíni í einu.

Skömmu eftir að hafa innbyrt koffíndrykkinn verkjaði Mansfield í bringuna og fannst hjartað slá óeðlilega hratt. Fáeinum mínútum síðar féll hann í gólfið og hóf að froðufella. Eiginkona hans hringdi þá á sjúkrabíl, en sjúkraliðar reyndu endurlífgun árangurslaust í 45 mínútur.

Krufning leiddi í ljós að koffínmagn í blóði einkaþjálfarans voru 392 milligrömm í hverjum lítra blóðs. Magnið, eftir hefðbundinn kaffibolla, væri líklega á bilinu tvö til fjögur milligrömm.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×