Erlent

„Úkraínska þjóðin minnir mig stundum á Ís­lendinga“

Atli Ísleifsson skrifar
Óskar Hallgrímsson býr í Kænugarði og segist dást að þreki úkraínsku þjóðarinnar.
Óskar Hallgrímsson býr í Kænugarði og segist dást að þreki úkraínsku þjóðarinnar. Vísir

Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari sem búsettur er í Kænugarði í Úkraínu, segir nóttina í úkraínsku höfuðborginni hafa verið nokkuð rólega. „Maður er samt orðinn pínu ruglaður af öllu þessu stressi. Ég svaf sjálfur ekkert vel en það var ekki mikið um sprengingar og læti í nótt.“

Hann segir íbúa nú búa við að útgöngubann sé í gildi frá klukkan tíu á kvöldin og fram á morgun. Íbúar fái fréttir af rússnesku hergagnalestinni, sem nú sé einungis um tuttugu kílómetra frá Kænugarði. Hann segist vona að úkraínski herinn nái að stöðva framgang hennar með drónaárásum sínum. 

Óskar segist dást að þreki úkraínsku þjóðarinnar og segir hana minna sig á þá íslensku.

Fær stríðið beint í æð

Óskar segir hræðilegt að hafa séð fréttir og myndir af fórnarlömbum árása Rússa á Kharkív, næststærstu borg landsins. „Þetta er hræðilegt. Maður er að sjá myndir af fórnarlömbum árásanna sem eru að missa útlimi eða deyja. Við sáum hræðilegar myndir af gamalli konu í gær sem var búin að missa lappirnar, var lifandi og öskrandi á jörðinni. Maður er að fá þetta stríð beint í æð hérna.“

Hann segir enginn hafa bundið neinar vonir við þær friðarviðræður sem fram fóru á landamærum Úkraínu og Hvíta-Rússlands í gær. 

„Það voru allir með það á hreinu að hann [Vladimír Pútín Rússlandsforseti] væri að sleikja sárin aðeins og fá einhverjar vistir og dót til hermanna sinna. Það virðist vera að illa gangi að koma eldsneyti og birgðum til rússneskra hersveita sem eru komnar inn í landið. Menn telja þessar friðarviðræður bara hafa verið eitthvað bull, enda kom í ljós að svo var. Pútín með einhverjar óraunhæfar kröfur sem Úkraínumenn myndu aldrei sætta sig við.“

Gangi illa hjá Rússum

Óskar segir að eldflaugaárásir Rússa á Kharkív sýna fram á að illa gangi hjá Rússum í stríðsrekstri sínum. 

„Rússarnir eru bara ekkert að komast inn. Mótstaðan er það mikil. Það er bara þannig. Þeim er bara alltaf ýtt í burtu um leið og þeir ná einhverju landsvæði. Þá kemur úkraínski herinn og hendir þeim út. Það er það sem hefur verið að gerast í Kharkív. Þeir eru þá að láta sprengjurnar rigna yfir íbúabyggðir. Rússarnir eru búnir að rústa miðborginni, rústa aðaltorginu, svakaleg sprenging sem var þar í morgun. 

Það er mjög augljóst að þeir eru farnir að beita hræðilegum brögðum í Úkraínu. Það er augljóslega ekkert á bak við það að þeir ætli bara að skjóta á hernaðarleg skotmörk.“

Með lítið sprengjuskýli inni á klósetti

Óskar segir að ágætlega hafi gengið hjá sér og sínum að verða sér úti um vistir. „Við erum með rafmagn, síma, internet og hita. Maður veit ekkert hvað það endist samt. Loftvarnarflauturnar eru í gangi núna og þær eru búnar að vera í gangi í allan morgun. Við erum bara að bíða fregna. Við erum með aðgang að góðri Telegram-rás sem veitir okkur opinberar upplýsingar um stöðuna og varar við hvernig árás er í gangi á hverjum tíma. Flestar af þessum eldflaugum eru stoppaðar af áður en þær komast inn í miðborgina. Ég bý á þannig stað í miðborginni að ég er frekar varinn af öðrum húsum. 

Við erum búin að hlaupa nokkrum sinnum niður, meðal annars í nótt. Svo erum við búin að búa til lítið sprengjuskýli inni á klósetti. Ef við heyrum spreningar þá erum við fljót þangað inn, aðallega til að verja okkur ef gler skyldi springa nálægt okkur. Maður er orðinn frekar lúinn vegna þessa alls. 

En ég er ekkert minna bjartsýnn á þetta en ég var í gær. Úkraínska þjóðin minnir mig stundum á Íslendinga. Þegar við sem þjóð þurfum virkilega að standa saman þá gerum við það ekkert smá vel. Það er sami andi hér,“ segir Óskar.


Tengdar fréttir

Vaktin: 64 kíló­metra löng rúss­nesk her­gagna­lest stefnir á Kænu­garð

Sjötti dagur innrásar Rússa í Úkraínu er hafinn. Rússar herja enn á höfuðborgina Kænugarð og á gervihnattamyndum hefur sést til 64 kílómetra langrar rússneskrar hergagnalestar norður af Kænugarði sem stefnir í suðurátt. Fréttir hafa sömuleiðis borist af frekari  átökum og sprengingum í fjölda annarra bæja og borga í Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×