Erlent

„Allar borgir ættu að eiga einn Antonio Banderas“

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Antonio Banderas tendrar jólaljósin í miðborg Málaga fyrir síðustu jól.
Antonio Banderas tendrar jólaljósin í miðborg Málaga fyrir síðustu jól. Vísir/Getty

Eftir að Antonio Banderas, tekjuhæsti leikari í sögu Spánar sneri aftur til fæðingarborgar sinnar, Málaga, hefur hann einbeitt sér að því að nýta auð sinn til að efla menningar- og atvinnulíf borgarinnar.

Frægðarsól spænska kvikmyndaleikarans Antonio Banderas tók að rísa á 9. áratugnum, þegar hann lék í 5 kvikmyndum Pedro Almodóvars. Sólin reis hratt og nokkrum árum síðar var Banderas farinn til Hollywood. Nú 40 árum síðar er Banderas snúinn aftur heim til Spánar, með um 100 kvikmyndir á ferilsskránni. Hann var Zorro og Stígvélaði kötturinn og margt fleira og er í dag tekjuhæsti leikari í sögu Spánar.

Fékk hjartaáfall og flutti heim

Fyrir fimm árum fékk hann hjartaáfall og þá ákvað hann að tímabært væri að snúa aftur til Spánar, til heimaborgarinnar, Málaga.

Banderas gerði sér grein fyrir nálægð dauðans og að maður verði að nýta hvert augnablik, hverja sekúndu. Og hann situr ekki auðum höndum á Spáni, rétt rúmlega sextugur.

Hann hefur dælt fjármunum inn í spænskt menningar- og atvinnulíf og nú er svo komið að rúmlega 300 manns hafa atvinnu í gegnum fjárfestingar Banderas.

Fyrir tveimur árum stofnaði hann og byggði stórt leikhús í Málaga, sem veltir andvirði rúmlega eins milljarðs íslenskra króna á ári. Hann hefur stofnað framleiðslufyrirtæki fyrir sjónvarp og kvikmyndir, sinfóníuhljómsveit, hann hefur opnað fjóra veitingastaði í miðborginni og fjárfestingarfyrirtæki hans stundar umfangsmikil fasteignaviðskipti. Í pípunum er svo stofnun leiklistarskóla, viðbygging við leikhúsið og jazzklúbbur.

Banderas laðar ferðamenn til Málaga

Banderas fer með aðalhlutverkið í Broadway söngleiknum Company, sem leikhúsið hans hefur sett upp, en bara þegar sýningin er sýnd í Málaga, þegar leikhúsið fer með söngleikinn til annarra borga þá tekur annar við hlutverki Banderas. Og þessi aðferð laðar fólk og peninga að Málaga. 40.000 manns hafa nú séð verkið í Málaga og helmingur þeirra er aðkomumenn.

Fjölmiðlar á Spáni fjalla reglulega með mikilli velþóknun um hvernig Banderas hefur notað auð sinn til þess að skapa jafnt menningu sem atvinnu. Borgarstjórinn í Málaga segir í samtali við El País að fjárfestingar Banderas í Málaga séu mjög mikilvægar, þær geri borgina sýnilega og laði að ferðamenn. Og forstjóri hótels í miðborg Málaga, bætir við: „Það ætti hver borg að eiga einn Antonio Banderas.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×