Erlent

„Skref sem gæti markað upp­haf stríðs í gjör­vallri Evrópu“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu talaði til Rússa á rússnesku í ávarpinu.
Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu talaði til Rússa á rússnesku í ávarpinu. Skjáskot

Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu ávarpaði þjóð sína í kvöld þar sem hann segir að yfirvöld í Rússlandi hafi fyrirskipað innrás og að þetta skref Rússa gæti verið upphafið á stríði í gjörvallri Evrópu.

Í ávarpi Zelensky sem birtist á Facebook síðu hans kom fram að hann hafi reynt að hringja í Vladimir Putin Rússlandsforseta í dag sem hafi ekki svarað.

„Það var þögn. Reyndar ætti þögnin að vera í Donbas,“ sagði Zelensky en Donbas er svæðið í austurhluta Úkraínu þar sem héröðin Donetsk og Luhansk er að finna þar sem aðskilnaðarsinnar hafa gert sig gildandi og óskað eftir hernaðaraðstoð.

Max Seddon, blaðamaður Financial Times í Moskvu, skrifaði um ávarp Zelensky á Twitter.

Zelensky sagði að á landamærum landanna, sem samtals væru um 2000 kílómetrar, væru núna 200.000 rússneskir hermenn sem væru búnir að fá fyrirskipun um að gera innrás á yfirráðasvæði annars lands.

„Þetta skref gæti markað upphaf stríðs í gjörvallri Evrópu,“ sagði Zelensky á rússnesku og talaði beint til nágranna sinna.

„Þeir eru að segja ykkur að þetta muni frelsa fólkið í Úkraínu. Fólkið í Úkraínu er frjálst, það þekkir fortíðina og eru að byggja upp sína framtíð,“ sagði Zelensky enn fremur. 

„Fólkið í Úkraínu vill frið“

Zelensky rifjaði upp tíma þar sem hann dvaldi á Donbas svæðinu og segir að hann eigi marga vini með fjölskyldur þar.

„Þeir segja ykkur að ég búinn að fyrirskipa árás á Donbas. Til að skjóta hverja? Til að sprengja hvern?“

„Ég er að tala rússnesku við ykkur en það skilur enginn í Rússlandi hvaða götur þetta eru. Þetta er okkar land og okkar saga. Fyrir hverju eruð þið að berjast? Og með hverjum?“

Þá biðlaði hann til rússnesku þjóðarinnar og sagði Úkraínu vilja frið.

„Mörg ykkar eigið ættingja í Úkraínu, þið stunduðuð nám í úkraínskum háskólum og eigið úkraínska vini. Þið þekkið okkar gildi og hvað skiptir okkur máli. Hlustið á ykkur sjálf og ykkar innri skynsemi. Fólkið í Úkraínu vill frið.“

„Ríkisstjórn Úkraínu vill frið og er að gera allt sem hún getur. Við erum ekki ein, fjölmörg lönd styðja Úkraínu. Þetta er ekki spurning um frið sama hvað. Þetta er spurning um frið, gildi, réttlæti, alþjóðalög og réttinn til að ákveða sína eigin framtíð.“

Orðrómar um árás í nótt

Luke Harding, blaðamaður The Guardian, skrifaði á Twitter í kvöld um stemmninguna í Kænugarði. Hann segir að orðróm á meðal embættismanna, erlendra tengiliða og blaðamanna að Rússar muni ráðast inn klukkan 4 eftir miðnætti að úkraínskum tíma. Þá er klukkan tvö hér á Íslandi.

Fréttin verður uppfærð



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×