Enski boltinn

Mbappe nú orðaður við Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe fagnar marki með Paris Saint Germain.
Kylian Mbappe fagnar marki með Paris Saint Germain. Getty/Antonio Borga

Ein allra stærsta spurning sumarsins í knattspyrnuheiminum er um það hvar franski landsliðsframherjinn Kylian Mbappe spilar á næsta tímabili.

Nú eru komnar fram vangaveltur um að það sé ekki eins skýrt og sumir töldu.

Mbappe er nefnilega sagður hafa skipt um skoðun um Real Madrid eftir að hafa spilað á móti liðinu í Meistaradeildinni í vikunni.

Þessi 23 ára franski framherji er einn eftirsóttasti knattspyrnumaður heims enda lítur framtíð þessa frábæra leikmanns út fyrir að vera mjög björt. Hvar hún verður er stóra spurningin.

Það hafa verið fréttir um risasamning Mbappe hjá Real Madrid og meira að segja forseti spænsku deildarinnar telur nokkuð öruggt að Mbappe endi hjá Real Madrid í sumar.

Mbappe hefur hafnað öllum samningsboðum Paris Saint Germain en hann getur farið á frjálsri sölu í sumar.

Spænska blaðið SPORT slær því hins vegar upp að Mbappe hafi snúist hugur og vilji nú frekar fara í ensku úrvalsdeildina en í þá spænsku. Þar er Liverpool sagt vera efst á blaði.

Jürgen Klopp á að vera að reyna að sannfæra Mbappe um að koma til Bítlaborgarinnar og taka þar næsta skref á sínum ferli.

Mbappe hefur verið orðaður við Liverpool áður en það er þó ljóst að hann fær þar aldrei jafnhá laun og hjá Real Madrid eða Paris Saint Germain.

Í fréttinni kemur fram að Mbappe hafi ekki verið mjög hrifin af gæðunum í Real Madrid liði Carlo Ancelotti í leiknum á þriðjudagskvöldið. Real liðið pakkaði í vörn í leiknum en Mbappe tókst loks að skora sigurmark leiksins í uppbótatíma.

Eftir leikinn sagðist ekkert hafa ákveðið um framtíð sína og að hann spilaði núna fyrir eitt besta lið Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×