Síðasta mark Cristiano Ronaldo fyrir United liðið kom í leik á móti Burnley 30. desember síðastliðinn. Síðan hefur hann spilað sex leiki í röð án þess að skora.
United liðið hefur virkilega þurft á mörkum frá Ronaldo að halda í þessum leikjum enda hafa aðeins tveir þeirra unnist.
Ekki er hann heldur að búa til aðra í þessum leikjum því síðasta stoðsending Ronaldo kom líka í umræddum Burnley leik.
Það er ekki eins og United hafi verið að spila við bestu liðin en mótherjarnir í markaleysi CR7 hafa verið Wolves, Brentford, West Ham, Burnley, Southampton og svo b-deildarlið Middlesbrough í bikarnum.
Í bikartapinu á móti Middlesbrough klúðraði Ronaldo vítaspyrnu í venjulegum leiktíma en Manchester liðið tapaði leiknum að lokum í vítakeppni.
Eins og Sky Sports tók saman þá hefur Ronaldo nú leikið í 537 mínútur án þess að skora og á þessum tíma hefur hann reynt 37 skot. Aðeins sjö þeirra hafa hitt markið eða bara nítján prósent skotanna.
Ronaldo fær tækifæri til að skora sitt fyrsta mark á árinu 2022 í kvöld þegar Manchester United fær Brighton & Hove Albion í heimsókn á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni.