Mia Skadhauge Stevn sást síðast þegar hún fór út að skemmta sér í miðbæ Álaborgar á Jótlandi aðfaranótt sunnudags.
Á öryggismyndavélum sést hún ein á gangi og setjast upp í dökkan fólksbíl um klukkan sex um morguninn. Umfangsmikil leit hefur staðið yfir en síðdegis á fimmtudag fundust líkamsleifar af konu.
Það var síðan staðfest í gærkvöld að um væri að ræða jarðneskar leifar Miu. Tveir menn eru í haldi og hafa verið ákærðir fyrir morðið, en aðeins annar þeirra situr í gæsluvarðhaldi.
Báðir neita þeir sök en alls óvíst er hvort þeir hafi tengst Miu á nokkurn hátt. Þá hefur enn ekki tekist að færa sönnur á að mennirnir hafi ráðið henni bana.
Umfangsmikil rannsókn stendur yfir en hún er að miklu leyti bundin við skóginn Drottningarlund, þar sem líkamsleifarnar fundust.
Atburðurinn hefur skapað ótta og óöryggi - ekki síst hjá ungum konum. Mikil sorg ríkir í landinu og hafa kerti og blóm verið lögð á staðinn sem Mia sást síðast. Þá kom fólk saman með kyndla og minntist Miu í nótt og kallaði eftir bættu öryggi á næturlífinu.