Erlent

Báðu um rannsókn á gagnameðferð Trumps

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AP/Jacquelyn Martin

Forsvarsmenn Þjóðskjalasafns Bandaríkjanna eru sagðir hafa beðið dómsmálaráðuneytið um að opna rannsókn á meðhöndlun Donalds Trump, fyrrverandi forseta, og starfsmanna hans á opinberum gögnum í Hvíta húsinu. Það er í kjölfar þess að í ljós kom að Trump hafði tekið fimmtán kassa af gögnum og skjölum með sér til Flórída er hann steig úr embætti.

Meðal þess sem Trump tók með sér til Flórída voru opinber bréf sem hann hafði fengið frá Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, og bréf sem Barack Obama, forveri hans, hafði skilið eftir handa honum í Hvíta húsinu.

Gögnin hefðu átt að vera afhent Þjóðskjalasafninu samkvæmt lögum.

Einnig hefur komið í ljós að Trump var gjarn á að rífa skjöl sem hann las og hafa starfsmenn skjalasafnsins þurft að líma margar blaðsíður saman eftir að Trump steig úr embætti.

Sjá einnig: Tók „ástarbréfin“ frá Kim með sér til Flórída

Starfsmenn Þjóðskjalasafnsins gruna Trump um að hafa brotið lög varðandi meðhöndlun opinberra gagna og þar á meðal gagna sem leynd hvílir á. Þess vegna var samband haft við dómsmálaráðuneytið og fólk þar á bæ beðið um að rannsaka málið, samkvæmt heimildarmönnum Washington Post.

Ekki liggur fyrir hvort ráðuneytið muni verða við beiðninni.

Samkvæmt bandarískum lögum eiga öll opinber gögn eins og minnisblöð, bréf, glósur, tölvupóstar og ýmislegt annað að enda í Þjóðskjalasafninu.

Sérfræðingar sem blaðamenn Washington post ræddu við segja ólíklegt að málið muni leiða til vandræða fyrir Trump eða mögulegrar ákæru.

Trump sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann sagðist hafa átt í góðum samræðum við starfsmenn Þjóðskjalasafnsins og hefði látið senda áðurnefnda kassa af gögnum í takti við lögin. Þá sendi hann fjölmiðlum vestanhafs pillu og sakaði þá um að gefa í skyn að ekki væri allt með felldu.

Forsetinn fyrrverandi sagði einnig að einhvern daginn yrði mikið af þessum gögnum til sýnis fyrir almenning til heiðurs þess mikla árangurs sem hann hafi náð í starfi sínu.


Tengdar fréttir

Gagnrýnir landsnefndina fyrir að beita sér gegn andstæðingum Trumps

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikanaflokksins í öldungadeild Bandaríkjanna, gagnrýndi í kvöld landsnefnd flokksins fyrir að ávíta tvo þingmenn flokksins. Það gerði landsnefndin vegna þess að þingmennirnir tveir taka þátt í rannsókn fulltrúadeildarinnar á rannsókninni á þinghúsið í fyrra.

Trump ætlar að náða ó­eirða­seggina ef hann vinnur

Donald Trump segist ætla að náða þá sem voru dæmdir vegna árásarinnar á þinghúsið þann 6.janúar í fyrra ef hann verður forseti á ný. Hann hélt fjöldafund í Texas í gær þar sem hann gældi við mögulegt forsetaframboð.

Lafhræddir Demókratar vilja drífa sig

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, vill tilnefna nýjan hæstaréttardómara eins fljótt og auðið er og koma tilnefningu hennar fljótt í gegnum öldungadeildina. Þar á bæ hafa Repúblikanar þegar gefið í skyn að þeir vilji draga ferlið á langinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×