Enski boltinn

Greenwood hefur verið handtekinn

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Leikmaðurinn hefur nú verið handtekinn.
Leikmaðurinn hefur nú verið handtekinn. Getty Images

Mason Greenwood, fótboltamaður Manchester United, hefur verið handtekinn grunaður um nauðgun og líkamsárás.

Lögreglan í Manchester staðfestir þetta við Breska ríkisútvarpið. Í frétt BBC segir að Greenwood hafi verið handtekinn og settur í gæsluvarðhald.

Harriet Robson, kærasta Mason Greenwood, birti myndbönd og hljóðbrot á Instagram-síðu sinni í morgun með yfirskriftinni: „Til þeirra sem vilja vita hvað Mason Greenwood gerir í alvörunni við mig.“

Myndirnar sýndu marbletti á ýmsum stöðum sem og Robson með sprungna vör. Hljóðbrotið sem hún birti er sagt vera af atviki þar sem Greenwood þvingar Robson til samræðis.

Enska knattspyrnufélagið Manchester United gaf út yfirlýsingu í kjölfarið þar sem stjórnendur félagsins kváðust fordæma ofbeldi.

„Við vitum af myndum og ásökunum sem ganga nú á samfélagsmiðlum. Við munum ekki tjá okkur um málið fyrr en staðreyndir þess eru komnar í ljós. Manchester United fordæmir allt ofbeldi,“ segir í yfirlýsingu félagsins.

Félagið birti aðra yfirlýsingu skömmu síðar þess efnis að leikmaðurinn muni hvorki fá að æfa né spila með liðinu þangað til annað komi í ljós. Þá hefur íþróttarisinn Nike kveðist ætla að fylgjast vel með framvindu mála en Greenwood er samningsbundinn fyrirtækinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×