Enski boltinn

Háð Legó­kubbum: Gæti tekið Le­góland fram yfir Dúbaí og Flórída

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jeff Sigworth í baráttunni við Maríu Þórisdóttur í leik Leicester City og Manchester United.
Jeff Sigworth í baráttunni við Maríu Þórisdóttur í leik Leicester City og Manchester United. Matthew Ashton/AMA/Getty Images

Það er fullkomlega eðlilegt að fullorðið fólk skemmti sér jafn vel og börn þegar kemur að því að byggja hluti úr Legókubbum. Jess Sigworth, framherji Leicester City, gengur hins vegar skrefi lengra.

„Svarið gæti komið þér á óvart. Það er ekki auðvelt að giska á hvað ég geri á frídögunum mínum,“ sagði Sigworth í viðtali við The Guardian nýverið. Hún var að ræða stressið sem fylgir því að spila í ensku úrvalsdeildinni og hversu mikilvægt það er að hreinsa hugann þegar tími gefst.

„Legókubbar, ég er háð þeim. Ég hef byggt Wembley og Old Trafford. Þegar þú ert að byggja úr Legókubbum þá tekur þú hugann af öllu öðru, það verður það eina sem skiptir máli.“

„Þegar þú ert búin þá hafa tvær til þrjár klukkustundir liðið án þess að þú hafir orðið var við það. Að byggja hluti úr Legókubbum hjálpar mér að hugsa ekki endalaust um fótbolta.“

„Fótbolti á þessu getustigi getur verið mjög krefjandi andlega, sérstaklega þegar það gengur illa að ná í úrslit. Það er gott að geta tekið hugann aðeins af fótboltanum, ef ég hugsaði um fótbolta allan daginn myndi ég missa vitið.“

Hin 27 ára gamla Sigworth leikur í dag með nýliðum Leicester City en hún kynntist Legókubbum hjá fyrrum félagi sínu, Manchester United.

„Ég byrjaði á þessu á síðasta ári þegar allt var lokað vegna kórónufaraldursins, svo varð ég bara háð.“

Óvíst hver verður farið í sumarfrí

„Ég elska Dubai og ég elska Flórída en ég verð augljóslega að fara í Lególand í Danmörku áður en langt um líður. Eina vandamálið er að ég á ekki nægilega stóra ferðatösku til að koma öllu fyrir sem ég mun kaupa.“

Eftir erfiða byrjun er Leicester City aðeins að rétta úr kútnum í ensku úrvalsdeildinni. Liðið er enn í bullandi fallbaráttu en Sigworth vonast til að vera enn spilandi í ensku úrvalsdeildinni er hún fer í Lególand næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×