Enski boltinn

Stuðningsmenn sem ryðjast inn á Emirates völlinn verða settir í bann

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gæslumenn vísa stuðningsmanni sem ruddist inn á völlin í leik Arsenal og Liverpool í gær af velli.
Gæslumenn vísa stuðningsmanni sem ruddist inn á völlin í leik Arsenal og Liverpool í gær af velli. Stuart MacFarlane/Arsenal FC via Getty Images

Þeir stuðningsmenn Arsenal sem fara inn á völlinn á heimaleikjum liðsins framvegis verða settir í bann og aðild þeirra að stuðningsmannafélagi liðsins dregin til baka.

Tveir stuðningsmenn Arsenal ruddust inn á völlinn í 2-0 tapi liðsins gegn Liverpool í undanúrslitum enska deildarbikarsins í gær. Þá var sá þriðji stöðvaður þegar hann nálgaðist leikmenn Liverpool er þeir fögnuðu.

Í yfirlýsingu sem Lundúnaliðið birti á opinberri heimasíðu sinni eru stuðningsmenn liðsins minntir á að það er lögbrot að ryðjast inn á völlinn án tilkilinna leyfa.

Þá segir einnig að ef einhverjir séu að velta því fyrir sér að leika þetta eftir skuli þeir hugsa sig tvisvar um þar sem að öll félög, sem og lögregla, taki þessum málum mjög alvarlega.

„Þeir sem gerast sekir um slík brot, svo sem að ryðjast inn á völlinn, kasta hlutum eða nota blys, munu eiga yfir höfði sér langt bann og mögulega frekari lagaviðurlög,“ segir að lokum í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×