Gríðarlega kröftugt sprengigos í nálægu eldfjalli sendi ösku og flóðbylgjur yfir eyjaklasann og eru vatnsból menguð. Flóðbylgjurnar ollu líka miklum skemmdum og er vitað til þess að minnst þrír eru látnir.
Í frétt Reuters er haft eftir Branko Sugar að unnið sé að því að hreinsa vatnsból en það gangi erfiðlega. Það sé þeirra eina drykkjarvatn og sé mengað. Þá eigi fólk erfitt með andardrátt vegna allrar öskunnar sem liggur yfir eyjunum.
Sjá einnig: Eins og fimm hundruð kjarnorkusprengjur hafi sprungið í einu
Hjálparstarfið til Tonga þykir tiltölulega flókið en snúa þurfti einni flugvél aftur til Ástralíu vegna þess að einn þar um borð greindist með Covid-19. Hingað til hefur kórónuveiran ekki teygt anga sína til Tonga og vonast yfirvöld þar til þess að halda veirunni fjarri.
Því þurfa hjálparstörfin í raun að vera snertilaus.

Ríkisstjórn Tonga lét snúa flugvélinni við þrátt fyrir að ríkisstjórn Ástralíu hafði heitið því að hægt væri að veita hjálparstarf í senn draga úr líkum á útbreiðslu kórónuveirunnar. Áhöfnin hafði skilað inn neikvæðum hraðprófum en einn greindist smitaður í PCR-prófi.
Samkvæmt frétt Guardian voru birgðirnar í flugvélinni færðar yfir í aðra flugvél og henni flogið af stað til Tonga í morgun.