Erlent

Á þriðja tug látin eftir troðning í messu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tuttugu og níu urðu undir í troðningi í messunni í gær. Hér má sjá konu leita í ruslinu sem varð eftir að lokinni messunni í gærkvöld.
Tuttugu og níu urðu undir í troðningi í messunni í gær. Hér má sjá konu leita í ruslinu sem varð eftir að lokinni messunni í gærkvöld. AP/Augustine D Wallace

Minnst tuttugu og níu eru látin, þar á meðal ellefu börn og ein þunguð kona, eftir að mikil ringulreið og troðningur skapaðist í messu í Líberíu. 

Að sögn lögreglu varð uppi fótur og fit þegar meðlimir glæpagengis ruddust inn í messuna í gærkvöld eftir að safnaðarmeðlimir höfðu safnað peningum í bauk fyrir kirkjuna, sem er venja hjá söfnuðnum. 

Sumir glæpamannanna hafi verið vopnaðir hnífum og hafi safnaðarmeðlimir því margir reynt að flýja út úr kirkjunni, með þeim afleiðingum að tuttugu og níu urðu undir. Einn hefur verið handtekinn í tengslum við málið. 

Hundruð voru viðstödd messunni, í New Kru Town hverfi Monrovia. Presturinn Apostle Abraham Kromah þjónaði til altaris, en hann er mjög vinsæll meðal kristinna Líberíumanna. Kromah rekur kirkjuna World of Life Outreach International og fylgismenn hans telja hann geta læknað og hjálpað fólki biðji hann fyrir því. 

Messan fór fram undir berum himni en George Weah, forseti Líberíu heimsótti staðinn í morgun og lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg. Þá lýsti hann því yfir að skoða ætti að taka í gildi reglugerðir til að tryggja að samkomur sem þessar fari fram á öruggum stöðum. 

Messur af þessu tagi kallast krossferðir (e. crusade) og eru mjög vinsælar í Líberíu. Þær eru haldnar nær öll kvöld í landinu og byrja vanalega klukkan sex á kvöldin þegar fólk er búið í vinnu og lýkur oft ekki fyrr en um klukkan tíu á kvöldin. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.